Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:21:05 (1571)

1999-11-16 21:21:05# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:21]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér vitnaði hv. þm. Ögmundur Jónasson í tvær skoðanakannanir varðandi spurninguna um hvernig fólk hefði svarað því hvort það vildi að Fljótsdalsvirkjun færi í lögformlegt umhverfismat. Það var nákvæmlega þetta orðalag sem ég var áðan að reyna að benda á og reyndi að færa nokkur rök fyrir hvernig og hvers vegna fólk hefði hugsanlega svarað á þennan hátt.

Það má einnig benda á að aldrei hefur þjóðin verið spurð í þessu samhengi hvaða skoðun hún hefur á byggðaáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Það hefði verið býsna athyglisvert. En vegna þess að hv. þm. sagði að ég hefði verið að gera lítið úr undirskriftasöfnun, þá er ég ekki viss um að það hafi aðallega verið mín orð sem þannig virkuðu á hv. þm. Ég held að ég hafi aðallega verið að lesa tilvitnun í blað þar sem framkvæmdastjóri söfnunarinnar var að lýsa ýmsum þáttum hennar. Ég verð að segja, hv. þm., að sú lesning hafði að vísu svipuð áhrif á mig og hv. þm. vegna þess að það var augljóst að þar var a.m.k. ýjað að því að hér væru hugsanlega ýmsar leiðir til þess að fjölga nöfnum.