Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:23:53 (1573)

1999-11-16 21:23:53# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. veltir fyrir sér skýringum á niðurstöðum úr skoðanakönnun. Eins og ég sagði áðan þá taldi ég mig gefa nokkuð gild rök fyrir því að það þyrfti a.m.k. að taka þar ýmislegt með fyrirvara. Ég held hins vegar að það sé rétt tilgáta hjá hv. þm. að fólk vilji að farið sé að lögum. Það er meginskýringin að mínu mati á niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar, þ.e. að fólk skilur spurninguna nákvæmlega þannig að það sé verið að spyrja það að því hvort það eigi að fara að lögum. Málið er hins vegar kristaltært í mínum huga. Það er verið að fara að lögum og það er meira að segja verið að stíga ákveðin skref til þess að vanda enn betur til vinnunnar heldur en lög krefjast nákvæmlega. Það er auðvitað vel. En alltaf má hugsanlega finna leiðir til að gera hlutina betur. Meginskýringin er sú að fólk skilur spurninguna þannig að verið sé að spyrja það að því hvort fara eigi að lögum og það er nákvæmlega sú blekking sem áróðursmeistararnir hafa nýtt sér til fullnustu.