Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 21:27:20 (1575)

1999-11-16 21:27:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[21:27]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég hefði talið eðlilegra meðan nægur tími var til stefnu til þess að skapa meiri frið um málið, að líta betur á umhverfisþáttinn. Hins vegar er ljóst eins og ég sagði áðan að nú er staðan þannig að til þess er ekki tími og ég held að það sé jafnljóst í huga mér og hv. þm. að auðvitað er ætíð hægt að gera betur í umhverfismálum og það er ekki skortur á því svæði sem þarna á í hlut að rannsaka og skoða því að af nógu er að taka. En einhvern tíma verður að taka ákvarðanir.

Fornaldarhyggjan í umhverfismálum getur kannski snúist í fornaldarhyggju í byggðamálum vegna þess að ef ekki er litið á öll þau tækifæri sem við höfum á landsbyggðinni til þess að bæta okkar hag, þá líst mér ekki á framtíðina því að við þurfum að sjálfsögðu að nýta alla þá möguleika sem til greina koma. Það er rétt að fram komi, og hv. þm. hlýtur að vita það, að ef erfiðleikar voru í byggðamálum árið 1990 og þau rök sem hv. þm. notaði þá hafa átt við árið 1990, þá liggur alveg ljóst fyrir að þau eiga enn frekar við í dag.