Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:32:38 (1600)

1999-11-17 13:32:38# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér hefur verið lögð fyrir þingið till. til þál. sem ég álít, og sný mér til hæstv. forseta með, að ekki muni vera þingleg í eðli sínu, að ég tali ekki um þingsafglöp. Hér er lagt til að:

,,Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsir Alþingi yfir stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun,`` o.s.frv.

Nú er ekkert slíkt í umræðu af minni hálfu að lög virki aftur fyrir sig, lög um lögformlegt umhverfismat. Það hygg ég að allir séu sammála um að nauðsyn verði að brjóta lög ef lög eiga að virka aftur fyrir sig. En hér vantar aðalgrundvöllinn fyrir okkur til að taka afstöðu til meðmæla sem hér á að veita til framhalds virkjunarinnar. Grundvöllinn vantar og hann er að finna í lögum sem hið háa Alþingi hefur sett um lögformlegt mat. Ég og allur þingheimur eigum lögverndaða kröfu, með vísun til þeirra laga, á að fyrir liggi þær upplýsingar sem slíkt mat á að gefa áður en hægt er að krefjast þess að ég taki afstöðu til málsins. Ég bið hæstv. forseta að fara með þessi skilaboð til hæstv. aðalforseta sem ég vænti þá að skjóti á fundi með þingflokksformönnum hið fyrsta.