Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:35:41 (1602)

1999-11-17 13:35:41# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir og hefur margkomið fram að Fljótsdalsvirkjun er undanþegin lögunum frá 1993 og m.a. er ljóst að hæstv. þáv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson heimilaði lagningu línu milli Akureyrar og Fljótsdals. Þá hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir því að þessi virkjun væri undanþegin þeim lögum. Hér er verið að fjalla um mál á grundvelli þeirra laga sem gilda í landinu.

Það er afar leitt til þess að vita að hv. þm. Sverri Hermannssyni skuli ekki nægja 25 ára reynsla í þessu máli og skuli vera með einhvern sparðatíning hér til að losna undan því að taka afstöðu til máls sem hann var helsti baráttumaður fyrir áður fyrr. Þetta er með sorglegri atburðum í þingsögunni, hv. þm. Sverrir Hermannsson. Ég held að hv. þm. ætti að hugsa nokkur ár til baka.