Framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:49:05 (1613)

1999-11-17 13:49:05# 125. lþ. 27.91 fundur 154#B framhald umræðu um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í ágætri umræðu í gær um þetta mál, sem er nú aftur komið til umræðu um stjórn þingsins, þá fannst mér ekki vera dreginn í efa sá réttur sem fyrirtækið Landsvirkjun hefur til þess að fara af stað með framkvæmdir í Jökulsá á Fljótsdal. (KolH: Það er rangt.) Sá réttur er ekki dreginn í efa nema þá hjá einstökum hv. þm. sem hér hafa talað fyrir einn tiltekinn stjórnmálaflokk.

Það liggur hins vegar líka fyrir að þáltill. sem flutt hefur verið á þingi eftir þingi af fyrrv. hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og núv. hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur getur ekki efnislega með nokkrum hætti tekið þann rétt af fyrirtækinu Landsvirkjun sem það hefur, sem Alþingi veitti því 1981. Þetta hefur lengi legið fyrir. Því hefur þessi tillaga alltaf verið sýndarmennska og ekkert annað.

Hins vegar er efnislega rétt fram borið mál um þetta nákvæmlega sama efni sem er frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er fyrsti flm. að. Vegna þess að hann spurði iðnrh., sem eðlilegt var, og fékk skriflegt svar við því, hvaða virkjanaheimildir væru til staðar á grundvelli laganna um raforkuver og hefðu verið veittar og þyrftu þar af leiðandi ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum eins og lögin um mat á umhverfisáhrifum standa. Það svar hefur fengist. Hann byggir frv. sitt núna á því að afnema þennan rétt. Með öðrum orðum, Samfylkingin leggur til að réttur sem Landsvirkjun fékk 1981 og til fleiri hluta en bara Jökulsár í Fljótsdal, verði tekinn af fyrirtækinu með lögum. Það er hægt, það er leið, en það kostar a.m.k. 3 milljarða kr. í skaðabætur ef svo á að vera og því verða menn að gera sér grein fyrir.