Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:39:49 (1631)

1999-11-17 14:39:49# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram að við hv. þm. Einar Már Sigurðarson erum duglegir að misskilja hvor annan, því hann sakaði mig um slíkt í gær. Ég ber fulla virðingu fyrir störfum í álverum sem annars staðar. Ég sagðist ekki ætla að svara því fyrir mig hvort ég hefði áhuga á að flytja landshornanna á milli til að fá starf í álveri, en var ekki með neinar slíkar fullyrðingar.

Það sem ég vil að við ræðum hér og ræðum það málefnalega þannig menn færi rök fyrir máli sínu, er hvort það sé til gagns fyrir fámenn byggðarlög eins og Austfirði, þar sem búa 8.400 manns núna, þar sem talað er um 4.000 ársverk, að flytja þangað eitt stærsta álver heimsins eða reisa þar eitt stærsta álver heimsins þar sem fjórðungurinn eða fimmtungurinn af öllum íbúunum kæmi til að starfa í tengslum við álverið. Ég er að velta vöngum yfir því hvort við séum ekki að setja of mörg egg í eina körfu og hversu hagstætt þetta sé fyrir byggðirnar. Ég held að ýmsir aðrir kostir séu til í því efni.

Í annan stað hef ég talað um þetta í víðu efnahagslegu samhengi. Við erum að tala um framkvæmdir sem skipta tugum milljarða. Við erum að tala um álver sem kynni að kosta um 120 milljarða kr. fullbyggt, fyrsti áfanginn um 30 milljarða. Við erum að tala um þetta. Við erum að tala um virkjun þar sem fyrsti áfanginn kostar um 30 milljarða, 25--30. Síðan þyrftum við að margfalda þetta með þremur, fjórum eða fimm til þess að fullnægja orkuþörfinni.

Hversu mikið efnahagslegt vit er í þessu? Hafa menn hugleitt hvaða áhrif það hefur á okkar efnahagslíf ef menn ætla síðan að taka hér innan lands alla fjármunina til þess að kosta þetta?