Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:44:37 (1634)

1999-11-17 14:44:37# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SÞ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Sturla D. Þorsteinsson:

Herra forseti. Margt hefur hér verið sagt og talsvert mikið er um endurtekningar svo ég hef ákveðið að stytta ræðu mína til að tefja ekki fyrir framgangi þessa máls.

[14:45]

Herra forseti. Heimildarlög um virkjun Jökulsár í Fljótsdal voru samþykkt á hinu háa Alþingi Íslendinga 1981. Þessi virkjun felur í sér miðlun á Eyjabökkum. Á grundvelli þessara laga veitti ráðherra virkjunarleyfi 1991. Líklega er hvergi í heiminum jafnlýðræðislega unnið að veitingu leyfa til virkjana og á Íslandi. Slíkt leyfi er aldrei veitt nema með samþykki hins háa Alþingis. Heimildarlögin frá 1981 gilda þangað til Alþingi ákveður annað.

Herra forseti. Undanfarin missiri hefur verið deilt um hvort fórna skuli Eyjabökkum undir uppistöðulón eða ekki. Sumir telja svæðið náttúruperlu en aðrir segja svæðið mýrafláka sem vel megi sökkva undir vatn. Andstæðingar þessara framkvæmda hafa bent á náttúrufegurð svæðisins, gróður og heiðagæsina. Nú er heiðagæsin orðin umhverfisvænn grasbítur. Hvers á blessuð sauðkindin að gjalda, hv. þm. Hjálmar Jónsson?

Í skýrslu Landsvirkjunar eru birtar niðurstöður rannsókna á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Þessi skýrsla er bæði ítarleg og vönduð. Ekki finnst mér hlutdrægninni þar fyrir að fara. Í skýrslu Landsvirkjunar kemur fram að Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur hefur um árabil rannsakað fuglalíf á Eyjabökkum. Þar kemur fram að svæðið gegnir þýðingarmiklu hlutverki sem fjaðrafellistöð fyrir heiðagæs en fáar gæsir verpa þar. Í niðurstöðum sínum um heiðagæsina segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson að útilokað sé að meta með nokkurri vissu hvaða áhrif uppistöðulón við Eyjabakka kunni að hafa á heiðagæsastofninn.

Í þessu sambandi vil ég minna á að heiðagæsin er býsna klókur fugl og hún kemur örugglega til með að laga sig að breyttum aðstæðum eins og hún hefur gert áður. Einnig má benda á, eins og hefur komið fram við þessa umræðu, að það eru ekki bara virkjanir sem geta haft áhrif á heiðagæsastofninn því 30--40 þúsund heiðagæsir eru skotnar á ári hverju.

Herra forseti. Andstæðingar þessa máls hafa haldið því fram að stjórnarþingmenn liggi undir miklum þrýstingi vegna þess. Það er af og frá. Eini þrýstingurinn sem ég verð fyrir er frá andstæðingum málsins. Mér finnst t.d. andstæðingar málsins gera lítið úr þeirri gífurlegu vinnu sem margir af okkar fremstu vísindamönnum hafa lagt til.

Talsmenn lögformlegs umhverfismats hafa gagnrýnt að almenningur fái ekki að tjá sig um málið. Sú gagnrýni á ekki við rök að styðjast. Hv. formaður iðnn. Hjálmar Árnason hefur lýst því yfir opinberlega að opnað verði fyrir umsagnarferli við þinglega meðferð málsins. Sjálfsagt hafa tækifærin aldrei verið meiri og betri en einmitt nú með tilkomu upplýsingasíðna nefndanna á vef hins háa Alþingis. Gamla sendibréfið er greinilega enn í fullu gildi.

Herra forseti. Þótt einhver röskun verði á svæðinu yfirvinnur hún ekki hinn mikla þjóðhagslega ávinning sem verður af virkjuninni fyrir þjóðina alla, ekki bara Austfirðinga eins og hér hefur komið fram. Virkjun Eyjabakka og álver í Reyðarfirði eru þau atvinnutækifæri sem landsbyggðina sárvantar. Þetta er eitt stærsta byggðamál síðari tíma.