Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:49:42 (1635)

1999-11-17 14:49:42# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram er um margt mjög athyglisverð. Þátttaka þingmanna í umræðunni er mikil og þegar dagur verður að kveldi kominn hefur væntanlega á fimmta tug þingmanna tekið þátt í þessari umræðu. Það er hugsanlega sönnun á því að hér sé vel að verki staðið hjá ríkisstjórninni með framlagningu þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir í gær.

Alþingi var raunar búið að taka ákvörðun um þessar framkvæmdir áður en það er afar fróðlegt fyrir þingmenn að fá að kynna sér þessi mál. Ég vil sérstaklega hrósa forsvarsmönnum Landsvirkjunar fyrir bókina sem okkur hefur verið afhent. Hún er fróðleg og afar vel unnin. Ég veit að hún er tekin saman af færum vísindamönnum og hefur mikinn fróðleik fram að færa.

Margt hefur verið sagt í þessu máli. Málið var og er eldfimt en þeir eldar hafa dvínað í þessari umræðu. Eftir stendur glóð og það er alls ekki óeðlilegt. Málið er viðkvæmt að því leyti að flestir stjórnmálaflokkar hafa komið að því. Sumir hafa reyndar reynt að þvo hendur sínar af því en gengið mismunandi vel.

Í hugum þingmanna hafa vaknað margar spurningar. Hér spila saman tilfinningar, huglægar og efnislegar forsendur koma hér inn í röksemdafærsluna. Vistvænir þættir, áhugi á umhverfismálum og efnahagsmálum fléttast saman og gera umræðu um þetta mál býsna flókna. Auðvitað spilar flokkspólitíkin inn í og einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa reyndar skotið sig í fótinn með rökum sínum.

Ég ber mikla virðingu fyrir málflutningi margra þeirra sem láta sig náttúruvernd varða þó öfgakenndur sé á köflum. Þeir eru ekki allir meiri umhverfissinnar sem hér hafa talað á móti virkjun og byggingu stóriðju en við sem viljum halda áfram þeim framkvæmdum. Það er t.d. býsna spaugilegt að hlusta í þessu sambandi á gæsaskyttur og hreindýraskyttur sem auðvitað eru miklir útivistarmenn, en þeir hafa gaman af að drepa þessi dýr. Ég hef ákaflega gaman að fylgjast með fuglum og hreindýrum en hef aldrei skotið dýr. Margir halda því fram að við sem fylgjum því að halda áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun séum umhverfissóðar þannig að öfgarnar ganga í allar áttir í þessari umræðu.

Margir þeirra sem hæst láta búa í manngerðu umhverfi og nýta sér alla þá tækni sem fyrir hendi er. Ég varð vitni að því í fyrradag þegar ég átti erindi í ónefnda verslun í Reykjavík að milli rekkanna var maður einn sem ég hélt að væri að gera verðkönnun. Hann var með spjald og var að biðja fólk um að skrifa á þetta spjald. Þetta var nokkurs konar mótmælaskjal sem þessi ágæti maður ráfaði með um verslunina og hafði væntanlega fullt leyfi verslunareiganda til. En það er heldur sérkennilegt að menn fái að ganga um verslanir til þess að ónáða fólk sem var að versla. Spurningin var einfaldlega sú hvort fólk vildi lögformlegt umhverfismat. (Gripið fram í: Þetta hefur ekki verið í kaupfélaginu?) Hv. þm. spyr hvort þetta hafi verið í kaupfélaginu. Jú, en að sjálfsögðu í nútímakaupfélagi Baugs í Reykjavík sem hefur um 70--80% af matvörumarkaðnum hér á svæðinu.

Hér er auðvitað um stórt hagsmunamál fyrir allt landið að ræða. Þetta skiptir efnahag þjóðarinnar miklu máli og er mjög brýnt byggðamál fyrir Austurland.

Á Íslandi er mikið neyslusamfélag. Í raun má segja að það sé neysluæði meðal þjóðarinnar sem birtist okkur í mörgum myndum, t.d. í bifreiðaeign þjóðarinnar, í tölvu- og tæknivæðingu, í íbúðarhúsnæði, húsum og innviðum. Íslendingar búa vel og ferðaþörf landans er mikil, bæði innan lands og utan. En ég velti fyrir mér hvort við séum tilbúin að hægja á okkur í neyslunni, uppbyggingunni, tækniþróuninni og í hinum félagslegu þáttum samfélagsins. Ég tel að þegar við veltum þeim málum fyrir okkur séum við Íslendingar því miður alls ekki tilbúnir til þess. Þess vegna hafa þessar framkvæmdir heilmikil áhrif á efnahagskerfi okkar og reyndar velferðarkerfið. Kerfið er þannig uppbyggt að við verðum að ná fjármagni, meiri peningum inn í ríkisreksturinn til að halda því við. Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að nýta það tækifæri sem hér er til atvinnuuppbyggingar. Það er einn þáttur þess sem hér er rætt um. Þetta er brýnt byggðamál fyrir Austurland.

Í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur í gær fjallaði hún um þá uppbyggingu sem hugsanlega yrði á þessu svæði. Hún talaði um íbúðabyggingar, hafnarframkvæmdir og hún talaði um stálþil. Ég kunni þeirri ræðu betur en sumum öðrum ræðum hv. þm. um þetta mál. Hún hefur mjög gjarnan bent á dauðann og djöfulinn, dæmi um álver í Noregi og Skotlandi sem hafa verið yfirgefin þar sem allt er í rúst. En mér fannst eins og heyra mætti eilítinn sóknar- og vonartón hjá hv. þm. þegar hún var farin að tíunda skipulagsmál og uppbyggingarmál. Ég er því ekki frá því að skoðanir hv. þm. hafi eilítið breyst í þessari umræðu og er það vel.

Einnig er brýnt og eðlilegt að dreifa atvinnutækifærum um allt land. Margir þingmenn hafa gefið í skyn að Austfirðingar hafi setið með hendur í skauti og beðið í 20 ár eftir virkjun og stóriðju. Þetta er auðvitað alrangt. Árið 1981 voru samþykkt lög um Héraðsskóga. Það verkefni er afar mikilvægt og spennandi. Menn hafa staðið sig með miklum ágætum í því. Það má raunar segja að það verkefni hafi blásið nýju lífi í landbúnað á Héraði.

Fiskvinnsla á Austurlandi er hátæknivædd, t.d. á Neskaupstað, Eskifirði og reyndar víðar. Austfirðingar standa mjög framarlega í listmunaframleiðslu. Mér dettur í hug viðurinn, í framhaldi af Héraðsskógaverkefninu, og ýmiss konar listmunir sem hafa verið unnir úr steini. Ferðaþjónusta er mikil og ört vaxandi á þessu svæði. Á svæðinu er einnig talsverð lífræn ræktun sem er spennandi kostur. Einnig er á svæðinu framleidd ýmiss konar hollustuvara þannig að það eru miklar öfgar að segja að Austfirðingar hafi setið með hendur í skauti og beðið eftir álveri. Þeir hafa nýtt sér þau tækifæri sem þeir hafa. Þetta er bara eitt tækifæri til viðbótar.

Með framlagningu þessarar þáltill. erum við að fara að settum leikreglum. Það hafa verið sett lög á Alþingi um þetta efni. Mjög margir þingmenn bera hér pólitíska ábyrgð. En það er jafnframt hollt fyrir þá þingmenn sem ekki voru í þinginu um það leyti að rifja þessi mál upp. Kratarnir hafa alla tíð verið í fylkingarbrjósti hvað virkjunar- og stóriðjumál varðar þannig að ég veit að í brjóstum þeirra leynist vonarneisti um að úr þessu verði. Flestir eru sammála um að málið er í mun betri farvegi nú en þegar það var samþykkt á sínum tíma í þinginu vegna þess að umhverfisspjöll, ef ég má nota það orð, verða mun minni en annars hefðu orðið.

Þegar ég fór í kynningarferð, að kynna mér staðhætti á Eyjabökkum, Egilsstöðum, Reyðarfirði og víðar nú í haust, opnuðust augu mín fyrir því hve mikilvægt mál þetta er fyrir mannlíf á svæðinu. Við að tala við íbúa á svæðinu kom í ljós að málið brennur mjög á þeim. Menn sögðu að vísu að stóriðja leysti ekki allan vanda en væri kærkomin viðbót eins og einn viðmælandi minn sagði þegar ég tók þátt í skoðunar- og kynnisferðinni um Austurland. Ég tek undir þau orð og vonast til að þessar framkvæmdir verði Austfirðingum og öðrum Íslendingum til góðs þegar upp verður staðið.