Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:03:20 (1637)

1999-11-17 15:03:20# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að gefa orðum mínum gaum, mjög málefnalega auðvitað. Í ræðu minni var ég í fyrsta lagi að vitna í ræðu hv. þm. Ég hef gjarnan hlustað á hv. þm. sem flytur oft athyglisverðar ræður en mér fannst kveða við nýjan tón. Mér fannst hún farin að sjá þetta í blámóðu fjarskans, að byggjast mundu upp aukin atvinnutækifæri á þessu svæði og fleiri hús rísa. Eins og ég sagði í ræðu minni er þetta kærkomið tækifæri til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Ég var sveitarstjóri á Hvolsvelli áður en ég varð þingmaður. Á einu bretti fluttust úr Reykjavík á Hvolsvöll 110 ársverk. Það var heilmikill biti fyrir ekki stærra byggðarlag en Hvolsvöll og Rangárvallasýslu að taka á móti því. En það varð alger bylting. Nú hefur hver hönd, bæði á Hellu og Hvolsvelli, nóg að gera. Auðvitað þykir fólki þetta um margt einhæf störf, það er klárt en þarna hafa sest að fjölmargir háskólamenntaðir menn, sérhæfðir iðnverkamenn, iðnaðarmenn o.s.frv. Þetta skipti sköpum fyrir samfélagið.

Á sama hátt er ég sannfærður um að bygging álvers á Austurlandi muni hleypa lífi í atvinnulífið þar.

Hv. þm. gerði að tillögu sinni að við mundum hleypa almenningi að okkur. Það vill nú þannig til með okkur landsbyggðarþingmenn að við erum mjög gjarnan úti í kjördæmum okkar í góðu sambandi við kjósendur okkar. Á hverjum morgni fer ég í sund í Laugardalnum þar sem þeir sem áhuga hafa ná alltaf sambandi við mig.