Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:09:09 (1640)

1999-11-17 15:09:09# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í því stóra og mikla máli sem hér liggur fyrir, þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, vil ég leggja orð í belg ásamt þeim 50 þingmönnum eða fleirum sem ætla að tjá sig um þetta mikla og stóra mál.

Fljótsdalsvirkjun kemur fyrst til í kringum 1954, eftir því sem ég hef lesið. Þó að það sé dálítið skrýtið þá var ég ekki nema rétt um 30 merkur held ég þegar þetta var. Síðan eru komin mörg kíló þannig að umræðan hefur staðið lengi. Ekki þekki ég það hvort ég er 10 kg léttari en hv. þm. Ísólfur Gylfi. Ekki veit ég hvort umræða um álver á Austurlandi er jafngömul.

Það sem ég vildi segja fyrst er að ég er hlynntur brtt. sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytja um að framkvæmdin skuli fara í svokallað lögformlegt umhverfismat. Ég er hlynntur því og tel það rétt. Ég vil fara yfir það nokkrum orðum.

Ég er sammála því sem hæstv. fyrrv. umhvrh. lagði til fyrir einu og hálfu ári, að vísu ekki formlega í ríkisstjórn, að hann teldi rétt að Fljótsdalsvirkjun færi í lögformlegt umhverfismat. Ég tel það glataðan tíma sem liðinn er síðan þá hjá hæstv. ríkisstjórn að nota ekki þann tíma. Við værum þá komin á lokasprettinn núna. Þetta segi ég líka vegna þess að við lestur ágætrar skýrslu Landsvirkjunar, sem mér finnst mjög góð og þar birtist mikill fróðleikur fyrir okkur nýja þingmenn, kemur fram að mjög margir fyrir austan hafa hvatt til þess, aðilar sem hafa hagsmuni og hag af virkjun og álveri, að lögformlegt umhverfismat fari fram.

Það er slæmt til þess að vita að þetta aðgerðarleysi hafi orðið til þess að skipta þjóðinni upp í tvær andstæðar fylkingar út af þessu máli og setja það þar með í allt of mikinn hnút að mínu mati. Það lýsir sér í skiptingu og deilum milli höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa. Það er ekki nógu gott að svo sé. Ég sé í gögnum frá fyrrv. hæstv. iðnrh., flokksbróður mínum Jóni Sigurðssyni, virkjanaleyfi sem hann gaf út 1991. Ég velti fyrir mér því sem sagt er um skaðabótaskyldur ríkissjóðs ef þetta verkefni færi í lögformlegt umhverfismat. Talað er um 3 milljarða og margir efast um það. Ég held að það sé ekki svo stór tala í þeim heildarpakka sem þarna á að verða ef hann á allur að kosta um 60 milljarða kr. Það hefði verið gott til þess að vita að þetta mat hefði farið fram til að fullnægja því og koma í veg fyrir þær miklu deilur sem nú standa yfir í þjóðfélaginu út af þessari virkjun og eru til tjóns fyrir framkvæmdina.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að farið var að ræða Fljótsdalsvirkjun, alveg frá 1981 og við virkjanaleyfið 1991, hefur margt breyst í þeirri framkvæmd til batnaðar. Skurðir eru farnir út og göng komin í staðinn, nútímaleg vinnubrögð. Háspennulínur þvert yfir landið eru farnar út og það er gott. Ég get sagt að mér finnst það gott sem landsbyggðarmanni að orkuna eigi að nýta sem næst virkjunum. Auðvitað er það til bóta að ljótar háspennulínur þvert yfir landið skuli ekki lengur koma til greina. Ég get skotið því inn í að ég er ekki andvígur byggingu álvers á Reyðarfirði. Ég get það ekki sem landsbyggðarmaður. Ég hef þurft að horfa upp á það sl. tíu ár að tíu þúsund manns hafa þurft að flytja frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á þeim tíma. (KHG: En styður þú það?) Bíddu rólegur, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. (KHG: En styður þú það?) Vertu ekki óþolinmóður.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir hv. þm. á að beina orðum sínum til forseta eða fundarins en ekki til einstakra þingmanna.)

Skal gert, virðulegi forseti. Ég segi líka að það mælir með slíkri framkvæmd að ekki eigi að virkja á stór-jarðskjálftasvæðinu á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði áðan er til bóta að nýta orkuna sem næst virkjununum og í framkvæmdir úti á landi. En ég tek það skýrt fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég er hlynntur því og hef talið langbest fyrir hið háa Alþingi að samþykkja að þetta verk færi í lögformlegt umhverfismat.

Kem ég þá aftur að byggðamálunum. Ég sagði áðan að ég væri ekki andvígur byggingu álvers á Reyðarfirði. Þó að þetta sé stór og mikil framkvæmd, þá get ég ekki sem landsbyggðarmaður, sem gagnrýnt hefur ríkisstjórnina fyrir að setja allar stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðið, andmælt þeirri framkvæmd. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að verið er að skapa 270 ársverk í þessu álveri og rúmlega 500 störf á svæðinu öllu þegar allt er tínt til.

[15:15]

Ég held að það hafi komið skýrt fram áðan svo það fari ekkert milli mála að ég vil horfa á þetta álver og þessa framkvæmd en ég get líka sagt að ef menn væru að tala um að byggja slíkt álver á höfuðborgarsvæðinu þá væri ég andvígur því. Það sem mælir með álveri er að menn ætla að setja það niður á landsbyggðinni.

En það eru aðrar hliðar á því og þetta leysir ekki byggðavanda nema Miðausturlands. Af því að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., er hér þá vil ég nota tækifærið og spyrja hann: Ef þessi framkvæmd fer í gang, sem ég efast reyndar ekki um að stjórnarmeirihlutinn ætli að ná í gegn, hvernig svo sem það verður gert, og þá er búið að leysa töluverðan vanda þarna, hvernig á þá að leysa vanda annarra svæða, Vestfjarða, Norðurlands vestra, Norðurlands eystra og Suðausturlands? Ég spyr t.d. hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. út í það. Munu menn t.d. vilja að eitthvað verði gert úti á landi, að einhverjar framkvæmdir komist í gang úti á landi? Vilja menn byggja jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar? Og svona aðeins í framhjáhlaupi: Hefur sala Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem skilaði ríkissjóði 14 milljörðum að mér skilst, hjálpað til við að komnir séu peningar til að setja í atvinnusköpun í öðrum kjördæmum landsins þar sem við eigum í vök að verjast, t.d. með jarðgöngum þarna á milli? Eða á að bæta við þensluna fyrir austan líka og taka þar ein, tvenn eða þrenn jarðgöng í leiðinni?

Þetta er mikilvægt mál fyrir mig sem nýjan þingmann vegna þess að ég hlustaði með athygli á ræður hv. þingmanna allra og hæstv. ráðherra til þess að mynda mér endanlega skoðun á málinu. Ég viðurkenni hiklaust að það togast á í huga mínum ýmis atriði eins og menn hafa heyrt.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt ofurkapp á málið sem er upp á 60 milljarða. Þá kemur upp í huga minn að ég hef átt orðastað við hæstv. ráðherra, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh., út af smámáli en sem þó er stórmál fyrir íbúa landsbyggðarinnar en það er niðurgreiðsla á húshitun. Talið er að 180 milljónir vanti á ári í þrjú ár til þess að setja íbúa landsbyggðarinnar, sem greiða dýrustu húshitun, niður í svokallaðan meðalflokk. Eins er verið að tala um að litlar 67 milljónir vanti til að stíga skref í átt til jöfnunar námskostnaðar fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Ég sé ekki í fjárlagafrv. að það sé á dagskrá. Ég hef gengið eftir svörum en engin fengið. Ég hef séð skýrslu núna sem verið er að vinna og setja inn hjá fjárln. þar sem verið er að draga úr þessu og allt að því verið að skera þetta niður í ekki neitt.

Þetta gerir málið frekar ótrúverðugt í huga mínum þegar ekki er hægt að stíga þessi skref. Þetta kemur upp í huga minn þegar rætt er um þessa framkvæmd.

Herra forseti. Úr þessum stól hafa verið fluttar margar ræður og á eftir að flytja margar ræður um þetta mikla mál sem er um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Það er sannarlega rétt að framkvæmdir eru þar hafnar, við sjáum það í skýrslu Landsvirkjunar. En ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég er hlynntur því og hefði talið það langbest fyrir land og þjóð að þetta færi í lögformlegt umhverfismat og harma það og gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að sá tími er liðinn sem þetta hefði getað verið í gangi og við værum þá komin á lokasprettinn. Ég segi það alveg hiklaust að ég hefði talið margfalt betra að þessir fullfæru menn alls staðar í þjóðfélaginu fari í gegnum þetta og gefi álit til Alþingis, hvort sem það er skipulagsstjóri sem endar svo hjá hæstv. umhvrh. með málið.

Hér aðeins í lokin vegna þess að menn greinir mjög á um hvort virkjunarleyfið er í gildi eða ekki í gildi. Ég sá í svari hæstv. iðnrh. við fsp. frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að t.d. eitt atriði, Villinganesvirkjun í Skagafirði, sem Landsvirkjun hafði virkjunarleyfi á, var greinilega inni í þessu undanþáguákvæði. En síðan hefur því verið breytt og það er komið til Rariks og þá er orðið skylt að fara í lögformlegt umhverfismat. Ég spyr aðeins út í það að Hitaveita Reykjavíkur hafði leyfi til þess að stækka jarðvarmavirkjun á Nesjavöllum en nú er það komið til Orkuveitu Reykjavíkur. Breytir það öllu í þessu máli að þarna hafi verið skipt um nafn? Ég veit ekki hvort það var skipt um kennitölu en a.m.k. er búið að skipta um nafn. Það var skipt um nafn gagnvart Landsvirkjun til Rariks gagnvart Villinganesvirkjun og þá ber henni að fara í umhverfismat að mati hæstv. iðnrh., hvað með Nesjavelli?

En ég vil svo ítreka það þó að ég viti að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. geti ekki mikið tjáð sig um það hér á eftir, en mig langar að heyra það inn í þá umræðu sem hér er til þess að halda áfram að mynda mér skoðanir á þessu máli: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að stórframkvæmdir ýmsar muni dreifast um allt landið ef Fljótsdalsvirkjun fer í gang og þær miklu framkvæmdir sem verða á Mið-Austurlandi? Munt þú beita þér t.d. fyrir því að jarðgangaframkvæmdir og ýmsar aðrar stórframkvæmdir á landsbyggðinni muni fara í gang eða verða þær allar að bíða vegna þess að þenslan í þjóðfélaginu verður of mikil við það 60 milljarða kr. verk sem þarna á að hefjast?

(Forseti (GuðjG): Forseti vill enn minna á að ræðumönnum ber að beina máli sínu til forseta eða fundarins en ekki til einstakra ráðherra eða þingmanna.)