Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:36:14 (1653)

1999-11-17 15:36:14# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi að eyða frekari orðum á skýrslu Landsvirkjunar sem hér er til umfjöllunar. Ég kom inn á það í andsvari við hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason áðan. Ég sagði í gær að skýrsla Landsvirkjunar væri í eðli sínu ágætlega til þess fallin að fara í það ferli sem lögin um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir. Hún er að sögn Landsvirkjunar unnin nákvæmlega á sama hátt og verið hefði ef um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum hefði verið að ræða.

Herra forseti. Ég dreg það í efa. Ég dreg í efa að venjuleg frummatsskýrsla hefði nokkru sinni haft þetta fína útlit og þann áróðurskennda blæ sem þessi skýrsla óneitanlega hefur. Því til staðfestingar nefni ég það meðvitaða bragð Landsvirkjunar að taka af sér fallið hvað eftir annað í skýrslunni með því að viðurkenna að mikil verðmæti tapist við framkvæmdina en jafnframt að meira vinnist. Þessi aðferð hefði aldrei verið viðhöfð í venjulegri frummatsskýrslu. Það er engu líkara en að Landsvirkjun sé að bera af sér sakir. Í skýrslunni er komið inn á öll atriði í kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landsvirkjun berst fimlega gegn þeim atriðum sem stjórnvöld hafa verið kærð fyrir.

Gott og vel, herra forseti, skýrslan ber öll einkenni áróðursplaggs. Það er kannski ekki aðalatriðið heldur hitt að hún er óumdeilanlega frummatsskýrsla. Hún er ekki umhverfismat. Margir hv. alþm. virðast halda, ef marka má orð þeirra úr ræðustól í gær, að skýrslan sé umhverfismat. En þetta er frummatsskýrsla, hv. þm. Hún liggur hér tilbúin í það ferli sem hæstv. ...

(Forseti (GuðjG): Forseti biður um hljóð í salnum á meðan hv. þm. talar)

Takk, herra forseti. Þetta er frummatsskýrsla sem hér liggur fyrir og hún er tilbúin í það ferli sem henni væri undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætlað, ferli undir handleiðslu skipulagsstjóra innan Skipulagsstofnunar hjá þeim sérfræðingum sem sú stofnun hefur á að skipa. Það fólk er hæfast til að framkvæma hið eiginlega mat, ekki alþingismenn. Eða halda menn, herra forseti, að ég eigi eftir að sannfæra hæstv. iðnrh. Finn Ingólfsson eða hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um að mín skoðun sé betri en þeirra? Eða þá öfugt. Halda menn að þeir eigi eftir að snúa mér til trúar á stóriðjustefnu? Afsakið, herra forseti, það er ekki mjög líklegt. (KHG: Þú færð tækifærið.) Það er nákvæmlega það sem við stóðum í í allan gærdag og höldum áfram í dag, að halda fram af ástríðu mismunandi skoðunum, allt eftir sannfæringu okkar að því er virðist. Við reynum að sannfæra hvert annað um ágæti eigin skoðana, sannfærð um að við höfum rétt fyrir okkur.

En við sannfærum ekki þá sem eru á öndverðum meiði við okkur í þessu máli, herra forseti. Ástæða þess að ég tel að sérfræðingum Skipulagsstofnunar farist betur úr hendi að leggja mat á fyrirliggjandi frummatsskýrslu er sú að þeir eru ekki tilfinningalega tengdir málefninu eins og við stjórnmálamenn óneitanlega og eðlilega erum. Sérfræðingar Skipulagsstofnunar ættu mun auðveldara með að velta upp öllum flötum þessa máls eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnssonar orðaði það hér í umræðunni í gær. Þeir ættu að geta lagt faglegt mat á þær upplýsingar sem skýrslan hefur að geyma. Ég sé ótal staði í skýrslunni þar sem ég býst við að sérfræðingar Skipulagsstofnunar mundu vilja láta framkvæma frekara mat.

Mér finnst það lýðræðislegri framgangsmáti að almenningur eigi formlega aðkomu að málinu eins og hið lögformlega ferli kveður á um og gef lítið fyrir þau orð hæstv. iðnrh., hv. 1. þm. Vestf. og hv. þm. Hjálmars Jónssonar hér í gær, að framgangsmátinn núna hleypi almenningi að málinu á lýðræðislegan hátt. Virðulegi forseti. Hann gerir það ekki. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé firra. Hvernig ætlum við alþingismenn að haga þeim aðgangi almennings að okkur? Eins og ég sagði áðan: Ætlum við að opna viðtalstíma 63 saman og taka á móti þeim tugum eða hundruðum sem vilja tjá sig um málið eins og blaðagreinar um málið undanfarin ár sýna? Hvernig ætlum við að hleypa almenningi lýðræðislega að okkur í þessu máli?

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um það hvernig þingmenn hafa stundað hér í umræðunni að gera lítið úr löggjafarsamkomunni með því að tala um ,,hið svokallaða lögformlega umhverfismat``. Þeir gera með því lítið úr þeim hugmyndum sem að baki liggja. En, herra forseti, hér er um góð og gild lög að ræða. Lög sem samþykkt voru lýðræðislega af lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi á vordögum 1993. Þau heita lög um mat á umhverfisáhrifum. Að baki þeim liggur tilskipun frá Evrópusambandinu, tilskipun sem án efa á sér rætur í breyttum hugsunarhætti, breyttu verðmætamati í hinum vestræna heimi, manna sem bera þessi málefni fyrir brjósti. Má ég minna á, herra forseti, að Bandaríkjamenn hafa metið stórframkvæmdir sínar samkvæmt lögum í u.þ.b. þrjá áratugi á sama hátt og lög um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Það er ekki að ósekju. Maðurinn hefur gengið þannig um jörðina, allt frá iðnbyltingu, að nú stefnum við beint til glötunar ef við sveigjum ekki frá villu okkar vegar.

Lög um mat á umhverfisáhrifum eru liður í að beina okkur inn á þær brautir sem mögulega geta fært mannkyninu farsæla framtíð á jörðinni í sátt við móður jörð.

(Forseti (GuðjG): Það eru allt of margir fundir í gangi hér í salnum. Forseti biður þingmenn að sýna ræðumanni þá virðingu að hafa hljótt meðan hann talar.)

Takk, virðulegi forseti.

Herra forseti. Munum að við eigum ekki nema eina jörð og ekki um aðra jörð að velja. Að mínu mati ættu hv. þm. að skammast sín fyrir þá lítilvirðingu sem henni er sýnd, þegar merkileg löggjöf sem sett hefur verið henni til varnar er sögð vera yfirvarp, eins og hv. þm. Ásta Möller sagði hér í gær, eða er nefnd af hroka ,,svokallað lögformlegt umhverfismat``.

Herra forseti. Skoðanakönnun sú sem birt var í fjölmiðlum í gær var fyrirferðarmikil í umræðunni, ekki síst sú niðurstaða sem fram kom þegar fólk var spurt um hvað fólgið væri í lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Hv. þm. duttu í þá gildru að gera lítið úr þeim sem ekki gátu svarað spurningunni. Hér var beinlínis gert lítið úr þrem fjórðu hlutum þjóðarinnar, sem margítrekað hafa lýst sig fylgjandi því að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Ég gerðist svo tungulöng í mótmælum mínum í gær að halda því fram að þjóðin tryði á lögformlegt umhverfismat. Ég ætla að standa við þau orð mín með þeim rökum að þjóðin treysti löggjafanum og löggjafarsamkundunni, lögunum. Hún treystir því að lögin hafi verið sett að vel ígrunduðu máli. Hún treystir því að þau hafi verið sett í því augnamiði að tryggja réttláta og faglega meðferð mála.

[15:45]

Já, herra forseti, ég held því fram að þjóðin treysti löggjafanum fyrir því að hafa sett þarna góð lög. Það ber ekki að álasa nokkrum manni fyrir það að geta ekki svarað því í skoðanakönnunum hvað sé fólgið í þessum eða hinum lagabálknum. Hver gerir þá kröfu til nokkurs manns á götunni að hann geti gert grein fyrir því sem lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fela í sér, eða upplýsingalöggjöfin eða lögin um ónæmisaðgerðir? Það er alkunna, herra forseti, og hefur verið margprófað í skoðanakönnunum að í hæsta lagi 20% þeirra sem svara geta sagt eitthvað um innihald laga. Það er engin ný frétt. Það tekur ekki frá fólki þann rétt að treysta viðkomandi löggjöf og trúa því að hún hafi verið sett af góðum hug löggjafans og með velferð skjólstæðinga laganna í huga, með velferð landsins og þjóðarinnar í huga. Þannig treystir fólk lögum þessa lands. Það kom fram í þessari skoðanakönnun og ekkert annað. Það er skylda löggjafasamkomunnar, herra forseti, að bregðast ekki því trausti.

Virðulegi forseti. Það kom mér í sannleika sagt nokkuð á óvart í umræðunni í gær að það skyldi vera hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson sem mælti þau orð sem snertu mig hvað mest í ræðum hv. þingmanna sem eru á öndverðum meiði við mig í þessu máli. Það voru orð hæstv. utanrrh. um sjálfbæra þróun sem glöddu mig. Hugsunin að baki þeim var einlæg og hún var heiðarleg. Þau báru í sér þá skoðun ráðherrans að mikilvægt sé að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar og ég er sammála hæstv. utanrrh. En, herra forseti, ég get ekki fallist á að það skipti engu máli hvernig þær eru nýttar. Ég get ekki fellt mig við það að okkar hreina orka sé notuð til mengandi álbræðslu enda efast ég um ávinninginn sem af því hlýst á hnattræna vísu.

Stjórnvöld hafa aldrei getað svarað því hver sé í raun hnattrænn ávinningur af því að knýja 480 þús. tonna álbræðslu með endurnýjanlegri vatnsorku hér á Íslandi á móti sams konar álbræðslu, knúinni með raforku framleiddri með kolum eða olíu. Herra forseti. Mér er kunnugt um að íslensk stjórnvöld lögðu fram svar við spurningunni um hnattrænan ávinning á fundi vísinda- og tækninefndar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldinn var í Bonn fyrr á þessu ári. Þar gerði íslenska sendinefndin ekki einu sinni tilraun til að halda því fram að um hnattrænan ávinning væri að ræða heldur benti hún einungis á þann hlutfallslega ávinning sem væri af nýtingu hreinna orkugjafa.

Herra forseti. Það er ekki hægt að réttlæta stórkostlega eyðingu íslenskra náttúruverðmæta með skírskotun til hnattræns ávinnings fyrir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum vegna nýtingar vatnsorku hér á landi, talan sem út úr því reikningsdæmi kemur er svo fáránlega lág. Enda þótt öll orka sem framleidd er á Íslandi væri flutt til Evrópu um sæstreng þá væri hún varla nema 1% af allri orkunotkun í álfunni.

Hæstv. utanrrh. finnst vindmyllur ljótar og mér finnst uppistöðulón ljót, sérstaklega þegar ég hugleiði allan þann gróður sem liggur undir þykkum jökulleir á botni þeirra lóna. Þegar ég hugsa til gróðurs eins og þess sem sést hér á þessari mynd sem er eftir Guðmund Pál Ólafsson og tekin á Köldukvíslareyrum í júlí 1998 skömmu áður en vatni var hleypt á miðlunarlón við Hágöngur og Köldukvíslareyrum og Fögruhverum þar með sökkt undir vatn svo aldrei verður aftur tekið.

Herra forseti. Það kom einnig fram í máli hæstv. utanrrh. í gær að það liggi ljóst fyrir að hætt verði við virkjunina ef ekki nást samningar um viðunandi orkuverð. Og hvað er viðunandi orkuverð til stóriðju? Einingin sem gjarnan er notuð, og var notuð meira í gamla daga en nú, heitir mill. Ég minnist þess að forstjóri Landsvirkjunar hefur talað um að 18--24 mill séu ásættanlegar tölur, eða eitthvað í þá áttina, og að því sé stefnt. En ég sé ekki betur en að ársreikningur Landsvirkjunar sýni að stóriðjan sem Landsvirkjun er að selja raforku til í dag borgi 12,6 mill. Forstjóri Landsvirkjunar hefur líka haldið því fram á opinberum vettvangi að hann geri sér vonir um talsvert hærra verð fyrir orkuna í væntanlegum samningum en tölurnar í ársreikningi Landsvirkjunar gefa vísbendingu um. Samkvæmt þessum yfirlýsingum þurfum við kannski bara ekkert að óttast. Það nást kannski bara aldrei samningar um orkuverðið.

Virðulegi forseti. Ég vona að svo verði að þessir samningar takist ekki. Annars er það sorglegt, herra forseti, hvernig íslensk stjórnvöld með Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar í broddi fylkingar hafa falboðið íslenskt vinnuafl og íslenska orku til útlendinga, því í frægum bæklingi sem dreift var víða um lönd stæra íslensk stjórnvöld sig af því lága orkuverði sem erlend stóriðja greiðir fyrir hina hreinu, endurnýjanlegu orku. Og ekki nóg með það heldur stæra þau sig af þeim lágu launum sem greidd eru innlendu vinnuafli. Ég veit ekki betur en að þessar upplýsingar sé enn að finna á heimasíðu sendiráðsins okkar í Washington og, herra forseti, þær eru ekki sæmandi. Þetta stangast sannarlega á við upplýsingarnar sem íslensk stjórnvöld halda á lofti hér heima núna. Samkvæmt þeim verða nánast eintóm hálaunastörf í álbræðslunni á Reyðarfirði.