Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 15:52:25 (1655)

1999-11-17 15:52:25# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt við þessari spurningu er að ég efast um að virkjunin geti farið í gegn á bráðabirgðaákvæðinu í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég efast um að það standist lög. Ég efast um að virkjunarleyfið standist lög. Virkjunarleyfið var gefið út fyrir allt aðra virkjun. Sömuleiðis vil ég benda á að Fljótsdalsvirkjun hefur verið breytt talsvert mikið síðan virkjunarleyfið var gefið út. Og samkvæmt því ætti að gefa þetta leyfi út á nýjan leik vegna þess að virkjuninni hefur verið svo mikið breytt og þá ætti hún auðvitað að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Ég efast um að það standist lög að ekki skuli vera búið að endurskoða lögin um mat á umhverfisáhrifum. Ég tel það brjóta gegn tilskipunum EES. Ég bendi á að leyfi frá Fljótsdalshreppi fyrir virkjuninni liggja ekki fyrir. Ég bendi á að aðalskipulag og deiliskipulag svæðisins eru óunnin. Ég bendi á að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, sem hæstv. iðnrh. setur þó inn í greinargerð með þáltill. sem hér er til umræðu, gerir mjög svo alvarlegan fyrirvara við lón á Eyjabökkum og hæstv. iðnrh. sér ekki ástæðu til þess að setja þann fyrirvara inn í greinargerðina jafnvel þó að hann sé að vitna í álit samvinnunefndarinnar.

Það eru því ótalmörg atriði, hæstv. forseti, sem ég tel að standist ekki lög í þessu máli. Að lokum tel ég skaðabótakröfuna vera fullkomlega fallna um sjálfa sig.