Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 16:05:31 (1665)

1999-11-17 16:05:31# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að skoðanir okkar hv. þm. Einars Más fara ekki saman. Ég er á móti stóriðju á Íslandi, það veit hv. þm.

Ég vil hins vegar benda hv. þm. á, virðulegi forseti, að lögformlegt umhverfismat gæti mögulega leitt í ljós að lóni á Eyjabökkum yrði betur fyrir komið annars staðar en samkvæmt fyrirhuguðu plani Landsvirkjunar. Það kann vel að vera að lögformlegt umhverfismat leiddi í ljós að vegna umhverfisáhrifa á Eyjabökkum væri réttara að færa lónið framar, þ.e. þyrma Eyjabökkum, fara að tillögu Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings og setja lónið nær Fljótsdalnum sjálfum. Það kann vel að vera, við vitum það bara ekki. Þess vegna viljum við að lög um lögformlegt mat verði haldin. Ég bendi hv. þm. á að Samfylkingin var að leggja hérna fram í morgun frv. til laga um breytingu á lögum um lögformlegt mat. Samfylkingin vill að lögformlegt mat fari fram, ekki bara á Fljótsdalsvirkjun heldur á fleiri framkvæmdum.