Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:23:21 (1668)

1999-11-17 18:23:21# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Menn þekkja það á Eyjafjarðarsvæðinu hversu gott er að bíða eftir álveri sem aldrei kemur. Það var ekkert sérstaklega Eyjafjarðarsvæðinu til framdráttar eða upplyftingar að um langt árabil settu menn helst vonir sínar á að það mundi hleypa krafti í atvinnulífið og byggðaþróun á því svæði. Sem betur fer hættu menn því og einbeittu sér að öðrum hlutum og eyddu orku sinni í aðra hluti og það hefur skilað heilmiklum árangri þó hann mætti vissulega vera meiri.

Áhyggjur mínar gagnvart Austurlandi og því hvernig þetta mál hefur verið keyrt upp og rekið sem jafnvel stærsta byggðamál Íslandssögunnar tengjast því að ef illa fer, í þeim skilningi að þarna komi ekkert álver, fyrir hönd þeirra manna sem við það binda vonir, þá fer ekki hjá því með því sem umræðan hefur verið keyrð á þessum nótum, að það verður áfall. Það verður það því miður, jafnvel þó menn reyni að segja að menn séu að gera ýmislegt annað og menn hafi fyrirvara á og menn viti að þetta sé ekki í hendi þá liggur þetta svona.

Ýmsar staðreyndir fyrir varðandi orkuverðið, hæstv. iðnrh., jafnvel þó reynt sé að leyna þeim. Það liggur t.d. fyrir að stóriðjan hefur verið að borga 86--98 aura undanfarin tvö, þrjú ár, eins og álverðið hefur verið, að meðaltali fyrir rafmagnið á sama tíma og Íslandsmenn eru að borga þetta 2,70 og upp í 2,90 kr. á kwst. Þessar staðreyndir tala sínu máli.

Það er líka vitað að þetta lága verð, 12,6 mill, dugar engan veginn fyrir kostnaði í nýrri virkjun. Áhættan er mjög mikil og vandinn við þetta er sá að Ísland, ríkið og eigendahagsmunir þess eða mikilvægir fjárhagslegir hagsmunir í gegnum banka og sjóði eru öllum megin við borðið. Þó að vissulega sé virkjunin í einu hólfi og iðjuverið í öðru, þegar menn eiga í hvoru tveggja þá geta menn alveg séð fyrir sér hvaða þrýstingur verður á að láta þá hluti ganga upp. Það þarf auðvitað ekki að fara frekari orðum um það.