Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:37:26 (1676)

1999-11-17 18:37:26# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða próf hv. þm. er að leggja fyrir mig, en ef það er varðandi sjónarmið sem ég setti fram um 1990, sem eru mjög hliðstæð sjónarmiðum sem ég hef líklega talað fyrir bæði fyrr og síðar og allt fram á þennan dag, að óheppilegt væri að bæta stórframkvæmdum í röðum við fólksflutninganna til höfuðborgarsvæðisins, þá er það ekkert nýtt. Það þarf ekkert frekar að nefna árið 1990 en árið 1985 eða árið 1994 þegar menn ræddu stækkun Ísals eða álver á Grundartanga. Ég hef að sjálfsögðu alltaf verið þeirrar skoðunar að heppilegt væri að reyna að halda sem mestu jafnvægi í atvinnuuppbyggingu í landinu. Nema hvað, er það einhver speki? Ég held að hv. þm. ætti frekar að þakka mér fyrir að hafa t.d. nefnt Austurland í því samhengi. Ef einhver iðnaðaruppbygging gæti átt sér stað á Austurlandi þannig að þar væri verið að nýta orku og það væri í góðri sátt við umhverfið í þeim fjórðungi, þá er ég að sjálfsögðu hlynntur því að slíkir kostir séu skoðaðir. Hef ég sagt eitthvað annað? Ég held að hv. þm. ætti frekar að virða það við mig að ég t.d. sagði að ég væri ekki meðmæltur því að menn væru að gera gælur við álver í Eyjafirði, í mínu kjördæmi. Ég hef nefnilega ekki lagst ofan í það hljólfar í þessum málum að taka afstöðu út frá þröngum kjördæmissjónarmiðum og ég gæti kennt hv. þm. heilmikið um það ef hann hefði áhuga á því að afla sér þekkingar á því sviði, hvað það geti kostað að standa í lappirnar gagnvart því mikla návígi sem hagsmunirnir koma mönnum stundum í hvað varðar umhverfismál. Ég skal eyða kvöldstund einhvern tíma með hv. þm. og fara yfir það t.d. með honum hvernig þeir hlutir hafa stundum gengið fyrir sig í henni Mývatnssveit, á Eyjafjarðarsvæðinu eða annars staðar þar sem menn lenda allt í einu í þeirri aðstöðu að þetta er ekki bara eitthvert froðusnakk, heldur alvara og það reynir á það hvort menn meina eitthvað með umhverfisverndarstefnu sinni eða ekki.