Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:58:09 (1680)

1999-11-17 18:58:09# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða. Þingmaðurinn dró upp mjög skýra mynd af því hve viðkvæmt svæðið er. Ég ætla að vekja athygli á því að í umræðunni hér hafa stjórnarliðar gjarnan sagt við þá sem að krefjast umhverfismats að þeir hljóti að vera á móti virkjunum, álverum og því að nýta vatnsafl. Hins vegar er það staðreynd að í tillögugreininni, virðulegi forseti, segir að á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar skuli þingmenn afgreiða þetta mál. Ég spyr þingmanninn hvort hann telji það að Alþingi eigi að gera þetta mat í stað þess að fara leiðina sem hann lýsti áðan, sé vegna þess að stjórnarflokkarnir gefi sér fyrir fram að umhverfismat yrði neikvætt. Ég spyr sérstaklega vegna þess hve skýra mynd hann dró upp af þessu viðkvæma svæði, Eyjabökkum.