Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:02:36 (1684)

1999-11-17 19:02:36# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:02]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni umhvn. fyrir mjög svo heimspekilega ræðu um umhverfismál.

Í framhaldi af heldur drungalegri mynd sem hv. þm. dró upp sem afleiðingu af nytjastefnu mannskepnunnar og hreyfði þar með þekktu máli úr sögunni, þ.e. um árekstra milli manns og náttúru, þá vil ég varpa þeirri spurningu til þingmannsins hvort hann telji manninn hluta af náttúrunni og ef svo er, hvort slíkir árekstrar séu þá óhjákvæmilegir.

Hins vegar þar sem hv. þm. fjallaði um syndir feðranna í umgengni við landið fannst mér vanta nokkuð alþjóðlega sýn í ræðu hans, einkum með hliðsjón af því að umhverfismál hljóta að teljast hnattræn. Með því að hafna aðgangi að vistvænum orkugjöfum, sem eru sannarlega takmarkaðir í veröldinni, erum við að varpa ábyrgðinni frá okkur og yfir til annarra. Mun það ekki hafa áhrif á afkomendur okkar með sama hætti?