Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:03:54 (1685)

1999-11-17 19:03:54# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:03]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Markalínan sem við drögum milli nýtingar og náttúruverndar er að sjálfsögðu alltaf á hreyfingu. Hún byggir á mismunandi mati, mati sem tengist mörgum þáttum, bæði heimspekilegum og ýmsum öðrum þáttum sem of langt er að telja en m.a. því hvort við komumst af hér á jörðinni --- svo langt sé seilst. Þessi lína er á hreyfingu. Hún hefur verið að færast til á Íslandi mjög hratt.

Ég get ekki farið á þessum tíma út í það hvar og hvernig hún er dregin en við höfum komið okkur saman um leikreglurnar. Þær er einmitt að finna í mati á umhverfisáhrifum sem menn eru að sniðganga hér.

Varðandi vistræna orkugjafa þá er ég ekki mótfallinn virkjunum og ég vil að þær séu nýttar. Ég er ekki andstæðingur stóriðju en ég er ekki tilbúinn að kaupa það hvaða verði sem er, a.m.k. ekki því að virkjað sé á Eyjabökkum án þess að þar fari fram mat á umhverfisáhrifum.