Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:11:15 (1690)

1999-11-17 19:11:15# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Afstaða hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar er afskaplega heiðarleg og skýr. Hann er hnugginn vegna væntanlegra umhverfisfórna. Hann mótmælir því að náttúruverðmætum sé fórnað nema þeim sé sýnd sú tilhlýðilega virðing, eins og hann orðaði það, að senda þau fyrst í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Mér var hugsað til fangans sem fékk sígarettu og brennivínsstaup áður en hann var tekinn af lífi en það er aukaatriði.

Mig langar bara til að benda hv. þm. á að mat á umhverfisáhrifum getur falið í sér að bent verði á aðra kosti og betri sem mögulega lágmarka náttúrufórnirnar, jafnvel bent á betri kosti til landnýtingar, eins og að skynsamlegt og hagkvæmt gæti verið að stofna á svæðinu stóran þjóðgarð.