Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:35:11 (1705)

1999-11-17 19:35:11# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:35]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist hv. þm. Jón Bjarnason alls ekki hafa áttað sig á um hvað málið snýst, því miður. Þetta mál snýst um að nú er möguleiki á að selja rafmagn til álbræðslu á Austurlandi. (Gripið fram í: Gefa það.) Það er ekki víst að það takist. Menn skiptast í tvo hópa með það. Sumir eru mjög bjartsýnir en aðrir eru svartsýnir á það. Ég er fremur svartsýnn á það. En ef það skyldi takast þá er það stórkostlegasta aðgerð til að hjálpa einni byggð á Íslandi, Austfjörðum, sem við höfum átt völ á í áratugi. Um það snýst málið. Ef hv. þm. þykir allt snúast um hvort gert er ráð fyrir framkvæmdum í fjárlögum eða ekki, það sem ætlað er til byggðamála, þá spyr ég hann: Ætlar hann að snúast til fylgis við málið ef fram kæmi í 2. umr. um fjárlög að þessi loforð, það sem ætlað var í þáltill. um byggðamál, væru öll þar? Mundi hann snúast til fylgis við virkjunina?