Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 20:05:31 (1720)

1999-11-17 20:05:31# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[20:05]

Jónas Hallgrímsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þessar athugasemdir. Það er ekki bara að menn hafi gengið á Snæfell, menn hafa líka riðið upp á Snæfell þannig að ýmsar aðferðir eru notaðar. Ég er sannfærður um að margir mundu njóta útsýnisins af Snæfelli jafnvel þó þeir færu með kláfi upp á fjallið og það þarf ekki að verða þannig að það skaði náttúruna sé það gert á réttan hátt.

Varðandi öryggisþáttinn, sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni að nokkrum hluta, þá var það alla vega þannig þegar ég kom að mest þessum málum á sínum tíma, hjá Samtökum sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, að virkjunin var talin, ég vil segja, á þrælöruggu svæði. Það eru þá alveg nýjar upplýsingar sé það ekki svo. Það kann vel að vera að eitthvert hættumat sé til fyrir sveitirnar og þorpin en ég hef ekki heyrt um það getið. Hins vegar getur allt gerst í þessu og ég er ekki að mótmæla því að slíkir hlutir geti átt sér stað. Ég þekki bara einfaldlega ekki til þess.