Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:36:53 (1729)

1999-11-17 21:36:53# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:36]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt mikið um hvort Fljótsdalsvirkjun eigi að fara í lögformlegt umhverfismat eða ekki. Ég vil að það komi skýrt fram að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum fylgjandi því að tekin verði ákvörðun um að virkjunin fari í lögformlegt umhverfismat. En ég vil líka taka allan vafa um það að við erum andvíg stóriðjustefnu og ég tel að það hafi komið fram í okkar málflutningi í allan dag að við viljum fara aðrar leiðir.

Virðulegi forseti. Það vekur áhyggjur hjá nýjum mönnum í þinginu að upplifa, kannski í framhaldi af umræðum um daginn um stjórnsýslulög, hversu njörvuð við erum, hv. þingheimur, við hinar praktísku framkvæmdir í þessu samfélagi. Það er óhuggulegt fyrir nýja menn að upplifa það. Ég er ansi hræddur um að Alþingi Íslendinga mundi ræða þessi mál opnar, með meiri framtíðarsýn og á breiðari grunni en nú er gert ef við værum ekki svona bundin af því, eins og ég orðaði það í umræðunum um daginn, að vera framlenging á kansellíinu eða Íslandsráðuneytinu sem að meira eða minna leyti er að vasast í praktískum málum. Er ekki staðreyndin sú, hæstv. forseti, að við erum meira og minna þátttakendur í öllu ferlinu? Iðnrn. og starfsfólkið sem þar vinnur, virkar nánast eins og atvinnuráðgjafar í sveit fyrir þetta kerfi, einblínir á þá hluti sem þeim er uppálagt að einblína á. Þetta er stórgallað og það er stórvarasamt að haga málum á þennan hátt.

Er það ekki þannig að í gegnum okkar fyrirtæki, okkar menn, Landsvirkjun, sem að vísu Akureyri og Reykjavíkurborg eiga á móti ríkinu, þá eigum við þennan þátt líka? Og er það ekki svo, hæstv. forseti, að við erum kannski að vissu leyti búin að spóla okkur föst í farveg sem við eigum mjög erfitt með að koma okkur upp úr.

Ég frábið mér sem þingmaður fyrir vinstri græna að hlusta á þann málflutning sem hefur verið hafður uppi hér í dag af mörgum þingmönnum, að við viljum hverfa aftur til fortíðar, að við séum á móti virkjunum o.s.frv. Þetta er rangtúlkun. Þetta er ekki rétt því að stefna okkar er sannarlega sú að við viljum virkja og nota fallvötn landsins en við erum með spurningar um hvernig eigi að nýta. Er það ekki einmitt sú sýn sem við eigum að vera að fást við hér, þ.e. hvernig við ætlum að horfa á framtíðina, hvernig við ætlum að standa að orkunýtingu. Það er einmitt þess vegna sem við leggjum fram till. til þál. um vistvæna, sjálfbæra orkustefnu. Það er engin goðgá að fara í slíka hluti.

Nýjasta skýrsla Landsvirkjunar sýnir að við erum á mjög hæpnum grunni hér. 60% af raforku landsins gefa 3 milljarða, þ.e. stóriðjudæmið. 40% sem við notum inn á perurnar okkar og til iðnaðar okkar gefa 6 milljarða. Margir hv. þm. hafa í dag gert lítið úr hlutum eins og ferðaþjónustu. En staðreyndin er sú að aukning í ferðaþjónustu, í innkomnum útlendum peningum til landsins í gegnum ferðaþjónustu er tvisvar sinnum salan til stóriðju á síðasta ári, þ.e. 6 milljarða aukning. Það er 3 milljarða orkusala til stóriðju. Hvers vegna í ósköpunum eigum við ekki að stilla okkur út fyrir sviga og skoða þessi mál heildstætt? Hvers vegna eigum við ekki að staldra við núna og skoða hvort það er yfir höfuð rétt stefna fyrir íslenskt samfélag að fara í þessi stóru högg? Hvers vegna gilda ekki sömu lögmál um peningalegt ,,innpútt`` vegna lána frá útlöndum til stórra verkefna hér eins og í öðrum löndum? Hvers vegna geta Íslendingar gapað og tekið á móti öllum þeim stóriðjum sem í boði eru, helst í einu lagi? Er það ekki þannig að menn vildu helst gera meira en gert hefur verið? Menn vildu helst gera meira en gert var í Hvalfirði og þegar stækkað var í Straumsvík. Ef það hefði staðið til boða, þá var þjóðarsálin þannig þenkjandi að því meira þýddi því betra, því meiri þensla, því betra. Er þetta sú framtíðarsýn sem við höfum á málunum? Hefur stóriðjustefnan gefist okkur vel þegar upp er staðið? Hafa menn velt því fyrir sér?

Hér hafa menn talað um landsbyggðarmál. Þetta er ekkert landsbyggðarmál. Það er landsmál að byggja upp og taka lán, að setja svo stóra framkvæmd í gang í svo litlu hagkerfi. Það varðar landið allt. Og menn skulu átta sig á því að nákvæmlega sömu hlutir munu gerast á þeim árum sem það tekur að fjárfesta fyrir 200 milljarða í 480 þús. tonna dæminu og gerst hefur sl. þrjú til fjögur ár. Þeim sem hafa búið úti á landi, þeim sem fylgst hafa með landsbyggðarmálum kom ekkert á óvart hvað gerðist í framhaldi af ákvarðanatöku um auknar virkjanir og stóriðjuframkvæmdir á suðvesturhorninu. Hafandi búið við það að það var mínus upp á 600--700 manns til suðvesturhornsins á tiltölulegu stöðugleikatímabili, þá þurfti enga reiknimeistara til að átta sig á því að þessi tala færi yfir 2.000 miðað við innspýtingu á tugum milljarða til þessara stóru framkvæmda. Þarf nokkra spámenn til? Þetta eru lögmál. Þetta gerist svona. Eru menn þeir einfeldningar að halda þegar litið er á landið í heild, að eitthvað svipað muni ekki gerast? Enda kom það fram í ræðu hjá hæstv. forsrh. að núna væri tími til að taka ákvörðun til þess að þenslan gæti haldið áfram. Það væru líkur á að þetta færi að dala, þ.e. að áhrifin af því sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um færu að dala eftir eitt eða tvö ár. Menn vilja halda Hrunadansinum áfram.

Hæstv. forseti. Það er hingað á þetta svæði sem peningarnir fara ef menn vilja reiða svo hátt til höggs í efnahagsmálum. Það er hér sem er teiknað. Það er hér sem er planað. Efnið er flutt hingað inn til landsins. Áhrifin á landið munu verða nákvæmlega þau sömu og orðið hafa á liðnum tveimur til þremur árum. Ætla menn að horfa fram á þetta? Vilja menn þetta? Vilja menn að þjóðin standi á stöðugu þenslumarki? Er það markmiðið? Það er ekki markmiðið með samfélagsrekstri. Hér hlæja þeir sem eru fulltrúar fyrir verslun og viðskipti og hið frjálsa markaðskerfi. En mönnum er ekki hlátur í huga. Það skal ég segja mönnum, hæstv. forseti, að það að taka svona ákvarðanir er ekkert spaug og ekki einkamál neins svæðis. Þetta gildir fyrir landið allt og það skulum við hafa í huga.

[21:45]

Sjálfbær orkustefna byggir á því að við notum þá orku sem til ráðstöfunar er til að beisla í framtíðinni til að búa í haginn þannig að við getum sjálf horfið frá mengandi orkugjöfum. Svo einfalt er það. Hafi einhverjir misskilið okkur með það þá felur sú stefna í sér mikla uppbyggingu virkjana í takt við þá þróun.

Hér í ræðustólnum hefur verið rætt um að eiginlega borgi sig ekki að nýta orkuna þannig heldur þurfi að taka hana í stórum höggum og selja til stóriðju. Samt voru málin þannig fyrir fjórum árum að þrátt fyrir afgangsorku úr Blönduvirkjun, sem var hægt að selja til innanlandsnota, m.a. til garðyrkjubænda og fyrirtækja, að það ár varð metár í hagnaði Landsvirkjunar, ég veit ekki betur. Og hvað segja menn þá? Ég veit ekki betur en Landsvirkjun hafi tapað peningum síðan ballið hófst, sem kannski er eðlilegt vegna þess að hún hefur staðið í miklum fjárfestingum.

En þetta eru ekki einföld mál. Ég krefst þess að Alþingi Íslendinga horfi á hlutina heildstætt. Það er gamaldags að hv. þm. fari út um sveitir og borg og bæ og lofi verkefnum á þennan hátt. Okkar hlutverk er að hafa heildarsýn og búa til ramma þannig að þjóðin og félagasamtök standi að uppbyggingu og vinni á heilbrigðum nótum. Það verður ekki unnið á heilbrigðum nótum í þessu landi ef við hlutumst ævinlega til með tugmilljarða innspýtingu í krafti ríkisins á þennan hátt. Við eigum að fara fetið. Ekkert, hæstv. forseti, segir að það sé afturhvarf til moldarkofanna. Það eru útúrsnúningar og þannig málflutningur á engan rétt á sér. Fólk sem talar um nýja sýn og vistvæna stefnu vill taka upp annan lífsstíl. Sá lífsstíll byggir á því að hugsa sinn gang og, eins og við höfum skrifað undir á mörgum stöðum og erum meira að segja komnir með í gang gagnvart sveitarfélögunum, skila þessari plánetu, hóteli okkar, jörðinni, a.m.k. í svipuðu og helst betra ástandi til afkomenda okkar. Þetta er mjög einfalt og skýrt.

Virðulegi forseti. Ég vil aftur koma að landsbyggðarmálunum. Við erum að tala í þvílíkum upphæðum að ég efast um --- nú er talað um að almenningur erfitt með að skilja það sem spurt er um í skoðanakönnunum --- að nokkur geri sér grein fyrir þeim upphæðum sem um er talað. Ég held að mjög fáir landsmenn átti sig á, það upplifir maður úti í bæ, að hér er um að ræða framkvæmd, 480 þús. tonna álver, sem geti kostað um 200 milljarða. Ég efast um að fólk átti sig almennt á því hvaða upphæðir það eru og setji það í samhengi. Ég efast um að margir átti sig á því að þetta er svipað allri orkuframleiðslu okkar í dag. Þetta eru ótrúlegar tölur. Það sem talað er um til uppbyggingar á landsbyggðinni eru bara smáaurar í samanburði við þetta.

Virðulegi forseti. Ég vona að við getum tekið umræðuna upp á þessum grunni. Landsbyggðin og Ísland þarf ekki á áframhaldandi hráefnisframleiðslustefnu að halda. Unga fólkið í dag, vel menntað, það erum við Íslendingar, vill fjölbreytt atvinnulíf. Við erum að glata möguleikum með þessari stóriðjustefnu á úrvinnslu og fullvinnslu á mörgum sviðum vegna þess að við sjáumst ekki fyrir.

Menn meta það svo að virðisauki í fiskútflutningi gæti, ef vel væri á málum haldið, farið úr 85 milljörðum í svona 120--140 milljarða. Þetta er margra ára verkefni. Það er ekki ólíklegt vegna þess að t.d. Danir frændur okkar veiða 2 milljónir tonna eins og við. Ég veit ekki betur en að þeir geri 130--140 milljarða úr sínum afla. Svona er þetta með flestar atvinnugreinar. Landsbyggðin mun ekki njóta þess og þrífast á að við höldum áfram þessum hráefnisdansi, það er okkar trú.

Þess vegna, virðulegi forseti, fer ég þess á leit að menn opni augun fyrir því sem er nauðsynlegt, hvað svo sem hefur verið gert á undanförnum árum í ákvarðanatöku. Okkar er að taka nýjar ákvarðanir og þetta verkefni verður að fara í lögformlegt umhverfismat. Þá verður væntanlega lagt mat á þau atriði sem ég hef verið að nefna. Í þessu stóra samhengi er það afgerandi varðandi það hvernig við ætlum að lifa í þessu landi.