Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:56:21 (1733)

1999-11-17 21:56:21# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:56]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hef ég skoðanir á því eins og á öllum öðrum málum. Ég var að frábiðja mér að þurfa að vera á verklegum fundi hér. Það hæfir ekki vinnu þingsins og hefur kannski verið til trafala um margra áratuga skeið. Það er skoðun mín eins og glögglega hefur komið fram á undanförnum dögum og vikum. Ég tel að það hafi verið einn af okkar stærstu akkillesarhælum og staðið landinu fyrir þrifum hvað varðar alla stjórnsýslu hve stutt er á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins. Þess vegna er varla svaravert hvort maður hafi skoðanir á vegum, auðvitað hef ég þær. En ég teikna ekki brýr.