Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:57:15 (1734)

1999-11-17 21:57:15# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:57]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni um að unga fólkið vill fjölbreytt atvinnulíf. Það á ekki bara við um unga fólkið heldur fólk á öllum aldri. Það kom mjög glöggt fram í ítarlegri könnun sem Stefán Ólafsson prófessor gerði fyrir Byggðastofnun í fyrra að langstærsti orsakavaldurinn að flutningi fólks af landsbyggðinni er einhæfni atvinnulífsins. Þess vegna finnst mér það gríðarlega gott innlegg í að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, þ.e. á Austurlandi, að fá stórt og öflugt iðnfyrirtæki á Reyðarfjörð, fyrirtæki með 270 störf og annað eins í tengdri þjónustu. Þetta eru störf fyrir allar gerðir launþega: verkafólk, skrifstofufólk, tæknimenntað fólk o.fl. Síðan þarf náttúrlega þjónustu iðnaðarmanna og fjölmargra annarra þjónustuaðila. Við höfum séð í stóriðjufyrirtækjum hér í kringum okkur að þessu fylgir gríðarleg fjölbreytni í störfum.

Þess vegna held ég að það sé mikil og góð sending að fá þetta fyrirtæki á Austurland. Ég minni á það sem ég sagði í ræðu minni í gær að störf við þessi stóriðjufyrirtæki eru mjög eftirsótt. Ég nefndi sem dæmi að í Sementsverksmiðjunni á Akranesi, sem hefur verið starfrækt á fimmta áratug, hefur stærsti hluti starfsmanna unnið í 20--30 og upp í 40 ár. Í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hefur stærsti hluti starfsmanna starfað frá því hún var stofnuð fyrir 21 ári. Í álverinu í Straumsvík er meðalstarfsaldur 20 ár. Og þegar Norðurál var stofnað fyrir tveimur árum og auglýst eftir starfsmönnum þá komu ellefu hundruð umsókna. Þetta eru með eftirsóttari störfum í þjóðfélaginu hvort sem mönnum líkar betur eða verr.