Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:59:12 (1735)

1999-11-17 21:59:12# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Guðjón Guðmundsson erum sammála um að fjölbreytni er þörf. En það gilda ekki önnur lögmál um samfélagið Íslandi en um önnur samfélög. Því verður ekki á móti mælt að sú hraða og mikla uppbygging og mikla innstreymi fjármagns á stuttum tíma hefur valdið hliðarverkunum sem eru ákaflega slæmar, vægast sagt. Við þurfum að hafa yfirlit yfir það. Það er lágmarkskrafa. Ætlum við alltaf að hafa samfélagið alltaf í einhverju uppnámi, svokölluðum uppgangi og loka augunum fyrir hliðarverkunum?

[22:00]

Það vita allir að þenslan á höfuðborgarsvæðinu á rætur að rekja að stórum hluta til þess að þetta er gert óskynsamlega. Það er þessi yfirsýn sem ég krefst að við höfum á hinu háa Alþingi. Ef við höfum þessa yfirsýn og ef við gerum okkur grein fyrir því t.d. að slík ráðstöfun hækki húsaleigu um 40% og við ákveðnum það samt, þá það. En það er rangt að gera það án þess að hafa þessa yfirsýn og meta það. Það er okkar hlutverk að standa þannig að málum að við setjum svona framkvæmdir, svona stór verk, svona stórar ákvarðanir, í lögformlegt umhverfismat, þannig að heildaryfirsýn náist.