Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:18:34 (1738)

1999-11-17 22:18:34# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:18]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú hefur það gerst að hæstv. aðalforseti kemur hingað og fer með fleipur og staðreyndaleysu. Það skiptir ekki meginmáli, heldur skiptir mestu að sá maður sem hefur verið valinn til þeirra trúnaðarstarfa að vera aðalforseti misnotar aðstöðu sína. Hann kemur hingað þegar ég á ekki kost á að svara honum, herra forseti. Hann kemur hér með áburð og gætir þess að koma inn í umræðuna og bera mig sökum þegar hann á að vita, ef hann hefur hundsvit á þingsköpum sem ég dreg í efa að hann hafi, að ég get ekki komið og svarað fyrir mig, herra forseti.

Ég fordæmi þetta og krefst þess að ég fái að koma hingað og bera af mér sakir. Ég vil líka segja það, herra forseti, að hæstv. aðalforseti ætti að skammast sín fyrir að misnota þingsköp með þessum hætti. Ég dreg í efa að hann sé hæfur til að vera forseti fyrst hann kemur svona fram.