Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:33:09 (1748)

1999-11-17 22:33:09# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér gerist það á þessum þingfundi að forseti þingsins snuprar samforseta sinn í ræðustóli fyrir fundarstjórn hans. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því að í nágrannalöndum okkar leggja forsetar þingsins svo mikla áherslu á hlutleysi sitt gagnvart þingmönnum og flokkum að þeir jafnvel hætta að sækja þingflokksfundi í flokkum sínum.

Hér gerist það hjá okkur í hitamáli og pólitísku máli, herra forseti, sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa oft nefnt svo í þessari umræðu, að forseti Alþingis stígur úr forsetastóli og fer í andsvör á þann hátt að þingmenn telja sig nauðbeygða að óska eftir að ræða fundarstjórn forseta. Og þegar það hefur verið gert þá kemur forseti Alþingis, aðalforseti Alþingis, og snuprar samforseta sinn. Ég verð að lýsa því, herra forseti, að þessi uppákoma hér kemur mér svo á óvart að ég óttast að hún eigi eftir að draga dilk á eftir sér.