Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:54:45 (1754)

1999-11-17 22:54:45# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:54]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur rétt fyrir sér í því að að mörgu leyti eru komnar niðurstöður sem ekki er flókið að meta. En hann getur þess líka að það þurfi sérfræðinga til þess að meta ákveðna þætti.

Til eru leikreglur í þessu landi sem heita lög um mat á umhverfisáhrifum. Þær kveða skýrt og greinilega á um hvernig mat sérfræðinga skuli fara fram. Í umhverfismati á m.a. að meta byggðaþáttinn. Og við höfum rætt hann hér í dag og í gær. Ég vil benda hv. þm. á að kynna sér skýrslu sem nú liggur fyrir, frummatsskýrslu um álver á Reyðarfirði. Þar er greinargerð frá Byggðastofnun og í henni koma fram ótal spurningar þar sem Byggðastofnun óskar eftir frekari upplýsingum, frekari rannsóknum til að geta séð fyrir áhrifin á byggð og samfélag.

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að kynna okkur skýrslu sem liggur fyrir vegna frummats á álveri. Það tengist þessu máli og stór hluti af þáltill. hæstv. iðnrh. er beinlínis um álverið. Ég minni á það að skýrsla Nýsis fylgir í greinargerð með þáltill. Við verðum að hafa alla þætti þessa máls uppi á borðinu. Byggðastofnun hefur staðfest að á byggðaþættinum og samfélagsþættinum eigi eftir að gera margar rannsóknir.