Upplýsingatækni í skólum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:15:29 (1761)

1999-11-18 10:15:29# 125. lþ. 28.2 fundur 170. mál: #A upplýsingatækni í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: ,,Er það í samræmi við yfirlýstan vilja ráðherra til að efla upplýsingatækni í skólum landsins að selja Menntanetið?``

Það er ekki forsenda þess að efla upplýsingatækni í skólum að þjónusta við skóla á þessu sviði sé í höndum ríkisins. Á meðan á uppbyggingu Íslenska menntanetsins stóð og þar til ríkissjóður keypti Menntanetið árið 1996 var það t.d. í eigu einkaaðila. Fyrir frumkvæði og framsýna einstaklinga voru skólar hér í landi nettengdir miklu fyrr en í öðrum löndum þar sem uppbygging nettenginga skóla var í höndum ríkisins. Forsendur í upplýsingatæknimálum hafa gjöbreyst frá því að uppbygging Menntanetsins átti sér stað og nú bjóða mörg einkafyrirtæki þá þjónustu sem Menntanetið hafði frumkvæði að fyrir skóla.

Í stað þess að reka netþjónustu í samkeppni við einkafyrirtæki er skynsamlegra fyrir ríkið að skapa almennar forsendur til þess að skólar geti nýtt upplýsingatækni á greiðan hátt. Ríkið ætti að koma einungis að þeim þáttum þjónustunnar sem nauðsynleg er og fellur beinlínis undir verksvið ríkisins.

Þá er spurt: ,,Hvernig hyggst ráðherra tryggja jafnan aðgang allra skóla að námskeiðum og upplýsingum og aðra þátttöku sem er mikilvæg ef skólar eiga að vera virkir í upplýsingabyltingunni?``

Í tengslum við átak ríkisstjórnarinnar á sviði upplýsingatækni hefur menntmrn. fengið til ráðstöfunar á fjárlögum þessa árs alls 135 millj. kr. sem að stærstum hluta hefur verið varið til verkefna á sviði menntamála. Fénu hefur verið ráðstafað í samræmi við stefnu ráðuneytisins sem sett var fram í ritinu Í krafti upplýsinga. Stærstur hluti fjárins hefur farið til endurmenntunarnámskeiða fyrir kennara í upplýsingatækni, gerðar kennsluhugbúnaðar og tækjauppbyggingar í skólum. Fjöldi námskeiða í upplýsingatækni hefur verið haldinn fyrir kennara á vegum ýmissa aðila og hefur Íslenska menntanetið að litlu leyti komið að því námskeiðahaldi.

Endurmenntunarstofnun Kennaraháskóla Íslands hefur að mestu séð um námskeið fyrir grunnskólakennara auk þess sem einstaka skólar hafa haldið eigin námskeið fyrir kennara sína. Framhaldsskólakennarar hafa fengið styrki til að sækja námskeið þar sem þeir kjósa, jafnt hjá einkafyrirtækjum og opinberum aðilum. Sú tilhögun að láta kennara sjálfa ráða því hvar þeir sækja námskeið hefur gefist mjög vel og lætur nærri að fjórðungur framhaldsskólakennara hafi sótt námskeið í upplýsingatækni á því hálfu ári sem menntmrn. hefur veitt styrki til slíks. Margir framhaldsskólakennarar hafa sótt slík námskeið hjá einkaaðilum. Sú stefna að veita kennurum styrki til þess að sækja námskeið frekar en ríkið nýti féð til að halda námskeið sjálft hefur því gefið mjög góða raun.

Hvað varðar aðgang að upplýsingum og aðra þátttöku þá hefur Kennaraháskóli Íslands lagt drög að því að byggja upp kennslufræðilega ráðgjöf á sviði upplýsingatækni sem mun að hluta til koma í stað þeirrar þjónustu sem Íslenska menntanetið hefur veitt. Æskilegt kann að vera að aðrir aðilar láti einnig slíka þjónustu í té og ekki er útilokað að einkafyrirtæki geti veitt hana.

Hvað snertir menntavef eða þjónustu við skóla á veraldarvefnum þá ber menntmrn. vissa ábyrgð á innihaldi og uppbyggingu slíks vefs, bæði gagnvart íslenska skólakerfinu og einnig vegna alþjóðlegs samstarfs. Ljóst er að ráðuneytið mun í framtíðinni rækja þessar skyldur hvort sem það verður með samningum við einkaaðila eða með öðrum beinum afskiptum.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Mun ráðuneytið greiða viðbótarkostnað skóla við tölvumál þegar þeir eru ekki lengur hluti af félagslegu umhverfi Menntanetsins?``

Ráðuneytið mun eftir sem áður greiða lögbundinn kostnað skóla við tölvumál og greiða fyrir því að þeir geti nýtt sér upplýsingatækni. Það liggur fyrir og hefur raunar komið fram í þessum þingsal að skólar hafa ekki allir skipt við Íslenska menntanetið. Í sumum sveitarfélögum skipta þeir við þjónustufyrirtæki í heimabyggð þannig að hér er ekki verið að flytja alla skóla frá Íslenska menntanetinu eitthvað annað heldur er verið að flytja þjónustu Íslenska menntanetsins að því er tengingarnar varðar til einkaaðila. Það var birt auglýsing að nýju og óskað eftir tilboðum í Menntanetið. Þau mál eru til umfjöllunar og ég er þess fullviss að öflug fyrirtæki á þessu sviði muni sýna því áhuga að tengjast íslensku skólastarfi með þessum hætti, veita skólunum góða þjónustu og metnaðarfulla. Ég hef því ekki áhyggjur af því að þessi hluti skólakerfisins flytjist í hendur einkaaðila.