Netþjónusta við skóla

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:24:45 (1764)

1999-11-18 10:24:45# 125. lþ. 28.3 fundur 171. mál: #A netþjónusta við skóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:24]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Niðurstaða okkar hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur var að eðlilegt væri að þessar fyrirspurnir yrðu samferða í fyrirspurnatíma. Ég tók að mér að mæla fyrir þeim vegna fjarvistar hennar.

Í rauninni er um framhaldsmál að ræða frá þeirri fyrirspurn sem ég bar fram áðan. Hún lýtur að því sem ráðherrann var að tala um síðast og ég hafði komið inn á, þ.e.:

,,Hvernig sér ráðherra fyrir sér að sérhæfðri skólaþjónustu verði sinnt eftir að Menntanetið, sem hefur verið eina fyrirtækið/stofnunin í landinu sem hefur sérhæft sig í netþjónustu við skóla og menntastofnanir, hefur verið selt án slíkra skilyrða?``

Forráðamenn í íslenska skólakerfinu sem gáfu yfirlýsinguna sem hér hefur orðið að umtalsefni voru með yfirlýsingu sinni að lýsa yfir vilja en um leið áhyggjum af því hvað yrði um þessa þjónustu eða hvernig hún mundi þróast.

Ég hlýt að líta svo á, miðað við það hvernig hæstv. ráðherra hefur talað um mikilvægi upplýsingatækninnar, að honum sé ekki sama um hvernig þessi þjónusta við skólana þróast. Ef netið er ekki sú söluvara, ef ekki er til sá einkaaðili sem vill við því taka, þá hlýtur að verða að hugsa fyrir því að skólarnir fái ákveðna þjónustu. Þó að einkaaðili vildi taka að sér eitthvað af þessum verkefnum þá telja ég og fleiri að þörf sé á ákveðnum aðgerðum til að halda þeim jöfnuði sem Menntanetið eða aðild að því hefur þó boðið upp á.

Önnur spurning hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur er svohljóðandi:

,,Hvaða aðili mun taka við hlutverki Menntanetsins varðandi fjarmenntun KHÍ og VMA?``

Í þriðja lagi:

,,Telur ráðherra að fámennir skólar í litlum sveitarfélögum sitji við sama borð og hinir fjölmennari í stærri sveitarfélögunum hvað varðar möguleika og þátttöku þegar búið er að selja Menntanetið án nokkurra kvaða?``

Ég hef, herra forseti, orðið vör við nokkrar áhyggjur af þessu. Menn reikna með því að þegar skólarnir fara út úr því sem kallað hefur verið hið félagslega umhverfi Menntanetsins þá muni stærri skólarnir og stærri sveitarfélögin ráða við að beina viðskiptum sínum í annan farveg og kaupa þá þjónustu öðru verði en þau hafa gert. Það gæti reynst hinum minni skólum og hinum minni sveitarfélögum ofviða.

Spurningin er: Erum við þá að efna til ójafnaðar sem við ætluðum ekki að efna til og viljum ekki sjá? Það er eðlilegt að fólk hafi af þessu áhyggjur. Menn höfðu ákveðnar áhyggjur þegar ríkið keypti netið á sínum tíma. Þá var alveg ljóst af hálfu hæstv. ráðherra að mikilvægt væri að starfsemi þess héldi áfram. Hins vegar er alveg ljóst að verkefnin þurfa að eiga samastað.