Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:04:31 (1781)

1999-11-18 11:04:31# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Meginástæða þess að við sögðum okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu á sínum tíma var sú að hvalveiðiráðið braut eigin samþykktir. Þetta er mér mætavel kunnugt um vegna þess að ég var formaður nefndarinnar sem lagði úrsögnina til á sínum tíma. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt hjá okkur að segja okkur úr ráðinu á þeim tíma vegna þess að það þjónaði engum tilgangi að starfa innan þess eins og málum var þar fyrir komið. Ég hef hins vegar aldrei útilokað að Íslendingar gengju aftur inn í Alþjóðahvalveiðiráðið, ekki til þess að hefja þar einhverja tilgangslausa snakkfundi eins og við sátum á árum saman þar sem aldrei var hlustað á nein rök í einu eða neinu, heldur eingöngu til þess að hefja veiðar og tryggja að við getum selt afurðir okkar. Ég tel, virðulegi forseti, að ef tekin verði um það ákvörðun að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið hljótum við að gera það undir þeim formerkjum og á þeim forsendum að það sé til þess gert að við hefjum veiðar, að við getum hafið veiðar strax, alveg eins og Alþingi hefur samþykkt að við gerum. Það er augljóst mál að þegar Alþingi samþykkir að hefja eigi hvalveiðar hið fyrsta þýðir það ekki eftir tvö, þrjú ár, þá þýðir það eigi síðar en á næsta eða þar næsta ári.