Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:10:10 (1786)

1999-11-18 11:10:10# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:10]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Mér fannst það dálítið merkileg niðurstaða hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að ekki standi til að fara að veiða hvali. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá hv. þm. eða öðrum sem hér eru staddir, að það var samþykkt með mjög afgerandi hætti á síðasta vori á Alþingi að hefja hvalveiðar að nýju, með 37 atkvæðum gegn 8, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Það kom reyndar líka fram þar í nál. meiri hluta sjútvn. að veiðarnar skyldu hefjast á næsta ári, það er rétt. Ég tel að eftir þessa samþykkt Alþingis sé það næsta skref að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið, með fyrirvara eins og hæstv. menntmrh. nefndi, með þeim fyrirvara að við ætlum að hefja veiðarnar því fyrir liggur að Japanar munu kaupa af okkur kjötið ef við verðum innan veggja í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það er næsta skrefið í málinu og auðvitað stefnum við fast og öruggt að því að hefja hvalveiðar á ný eins og Alþingi samþykkti á síðasta vori.