Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:11:16 (1787)

1999-11-18 11:11:16# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:11]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans og eins þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. utanrrh. að opna fyrir þann möguleika að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju og rökin fyrir því hafa verið nefnd í þessari stuttu umræðu. Auðvitað hangir þetta mjög saman við þá ákvörðun hv. Alþingis að hefja hið fyrsta hvalveiðar að nýju, þessi mál hanga mjög saman við aðild okkar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það er mjög mikilvægt að rödd okkar heyrist á alþjóðavettvangi þannig að sjónarmið Íslendinga komi fram. Það höfum við sýnt á öðrum vettvangi svo sem í NAMMCO og má líka taka Bernarsamkomulagið svonefnda. Fyrst ég nefni bæði NAMMCO og Bernarsamkomulagið vekur það athygli að áherslur hvað varðar hvalveiðar eru ólíkar annars vegar hjá NAMMCO og í Bernarsamkomulaginu og hins vegar í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það segir okkur m.a. að hve brýnt það er fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð að taka þátt í slíku alþjóðasamstarfi þannig að rödd okkar og rök kunni að heyrast. Ég ítreka líka það sem áður var nefnt að umræðan á alþjóðavettvangi er að breytast þar sem meira tillit er tekið til sjálfbærrar þróunar og sjálfstæðisákvörðunarréttar einstakra þjóða. En ég fagna yfirlýsingu hæstv. utanrrh. og þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni.