Alþjóðlegur sakadómstóll

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:21:34 (1791)

1999-11-18 11:21:34# 125. lþ. 28.6 fundur 143. mál: #A alþjóðlegur sakadómstóll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:21]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir góð svör. Ég hafði reyndar vonast til að fullgilding sáttmálans færi fram fyrr en kom fram í máli hans. Ég vil benda á að á undanförnum mánuðum hafa fjölmörg alþjóðleg samtök hvatt þjóðríki til að fullgilda samninginn sem allra fyrst. Þar á meðal get ég nefnt Alþjóða rauða krossinn og Alþjóðaþingmannasambandið sem samþykkti ályktun í Berlín nú í október þar sem skorað var á þjóðþing að staðfesta samninginn um stofnun alþjóðlegs sakadómstóls sem allra fyrst.

Ég tel þetta sérstaklega brýnt því að á undanförnum mánuðum höfum við orðið vitni að hryllilegum glæpum bæði í Kosovo og öðrum ríkjum fyrrum Júgóslavíu og nú í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna eins og Tsjetsjeníu. Það er mín bjargfasta trú að alþjóðasamfélagið þarfnist tækis sem þessa til þess að sporna gegn glæpum á ófriðartímum og koma lögum yfir stríðsglæpamenn.

Að mati margra er sáttmálinn talinn jafnmikilvægur og mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og hefur Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, m.a. lýst honum sem stórstígu skrefi til að tryggja mannréttindi og lög og rétt í heiminum.

En ég þakka fyrir þessi svör.