Alþjóðlegur sakadómstóll

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:23:15 (1792)

1999-11-18 11:23:15# 125. lþ. 28.6 fundur 143. mál: #A alþjóðlegur sakadómstóll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að mikilvægt er að fullgilda þennan samning. Íslendingar eiga að sjálfsögðu að leggja á það mikla áherslu. Þeir atburðir sem orðið hafa að undanförnu, sem eru hörmulegri en búist var við þegar við horfum inn í nýja öld, sanna að mikilvægt er að allir þeir sem fremja stríðsglæpi og voðaverk gegn mannkyninu geti verið vissir um að þeir verði eltir þar til þeim verði náð en komist ekki undan eins og gerst hefur í fjölmörgum tilvikum. Það er fyrirbyggjandi ráðstöfun.

Okkar skylda hlýtur að vera að reyna að fyrirbyggja slík voðaverk. Þeir aðilar sem staðið hafa í þessu hafa í allt of miklum mæli sloppið og þess vegna oft gengið óhikað til verks. Ef þeir vita að þeir eigi von á því að verða dregnir fyrir alþjóðlega dómstóla þá er ég viss um að það mun a.m.k. draga úr voðaverkunum.