Afkoma Flugstöðvar og Fríhafnar á Keflavíkurflugvelli

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:27:46 (1794)

1999-11-18 11:27:46# 125. lþ. 28.7 fundur 156. mál: #A afkoma Flugstöðvar og Fríhafnar á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Fréttir af afkomu flugstöðvarinnar og Fríhafnarinnar hafa verið nokkuð villandi að undanförnu. Það sýnir vel hversu vandasamt verk það er að lesa sannleikann út úr reikningsskilum á hverjum tíma. Ég skal ekki fara nánar út í það hér en ætla að reyna að útskýra hvað þarna hefur gerst.

Sannleikurinn er sá að rekstrartekjur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa aukist verulega milli ára og afkoma stöðvarinnar hefur batnað umtalsvert. Áætlanir um rekstrartekjur Fríhafnarinnar undanfarin ár hafa staðist. Fríhöfnin hefur þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar á rekstrarumhverfi hennar náð að vaxa og dafna. Á gjaldahlið reksturs Fríhafnarinnar árið 1998 hafa hins vegar orðið verulegar breytingar, sumar fyrirséðar en aðrar ekki. Þessar breytingar hafa leitt til þess að afkoma Fríhafnarinnar verður lakari árið 1998 en vænst var til en allt útlit er fyrir að það sé einungis tímabundið.

Árið 1997 var skipuð nefnd um málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar alþingismanns, þar var varaformaður Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og einnig fulltrúar þriggja ráðuneyta. Þessi ágæta nefnd vakti m.a. athygli á því að á sama tíma og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefði árum saman glímt við fjárhagsvanda yrðu til miklar tekjur á flugvellinum sem rynnu annað. Tillögur nefndarinnar gengu m.a. út á að tekjur flugstöðvarinnar af útleigu verslunarhúsnæðis yrðu auknar með því að fjölga útleiguplássum og bjóða þau út. Þar sem Fríhöfnin þyrfti sem ríkisrekin verslun ekki að taka þátt í útboði um verslunarpláss sitt var jafnframt lagt til að leigugjald hennar yrði ákvarðað með tilliti til leiguverðs annarra rekstraraðila í stöðinni að viðbættu sérstöku álagi.

Til að skapa svigrúm fyrir starfsemi einkarekinna verslana í flugstöðinni við hlið ríkisrekinnar fríhafnar var jafnframt ljóst að nokkrar takmarkanir yrði að gera á vöruúrvali Fríhafnarinnar.

[11:30]

Hækkun meðalleiguverðs í flugstöðinni leitar sjálfsögðu til umtalsverðrar hækkunar á þeirri húsaleigu er Fríhöfnin greiðir til flugstöðvarinnar. Hækkun húsaleigu Fríhafnarinnar árið 1998 miðað við árið 1997 nam u.þ.b. 142 millj., en leigutekjur flugstöðvarinnar hækkuðu um 287 millj., þannig að fríhöfnin var að greiða u.þ.b. helming af þeirri hækkun. Á árinu 1998 hækkaði launakostnaður hjá Fríhöfninni umtalsvert, eða um 18,3%. Það stafar að hluta til af almennum hækkunum launa, hluta til af breyttri vinnutímalöggjöf og einnig af því að þróun í flugumferð kallar á lengri opnunartíma vegna fleiri lendinga með farþega utan hefðbundinna tíma. Sú kostnaðaraukning hefði orðið alveg óháð breytingu á rekstrarfyrirkomulagi.

Á árinu 1998 var gjaldfærð rúmlega 90 millj. kr. lífeyrisskuldbinding hjá Fríhöfninni. Sú fjárhæð er hærri en reiknað var með og stafar að verulegu leyti af villu í útreikningi lífeyrisskuldbindinga ársins á undan. Þetta skekkir að sjálfsögðu samanburð milli þessara tveggja ára. Breytingar á vöruúrvali Fríhafnarinnar leiddu til lækkunar á meðalálagningu, þar sem út fóru vöruflokkar með hárri álagningu. Í allt voru rekstrarútgjöld Fríhafnarinnar u.þ.b. 368 millj. kr. hærri fyrir árið 1998 en áætlanir gerðu ráð fyrir sem skýrir þetta að sjálfsögðu. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu skýringum á þeirri aukningu á rekstrarútgjöldum Fríhafnarinnar umfram forsendur fjárlaga. Þar vegur mest hækkun á húsaleigu, en eins og áður greinir er þar um að ræða fjármuni sem áfram munu renna til ríkisins. Eftir stendur að Fríhöfnin er þrátt fyrir verulega aukna samkeppni að skila myndarlegum rekstrarafgangi í ríkissjóð. Árið 1998 skilaði Fríhöfnin 400 millj. kr. arði til ríkissjóðs og 190 millj. áfengisgjaldi til ríkissjóðs, samtals 590 millj. Þegar litið er á þróun rekstursins hjá Fríhöfn og flugstöð það sem af er þessu ári, þá hefur staðan batnað frá því á síðasta ári. Samkvæmt níu mánaða uppgjöri Fríhafnarinnar námu rekstrartekjur 2.354 millj., sem er 14% hækkun. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 260 millj. kr., sem er 50 millj. kr. hækkun frá síðasta ári. Fyrir liggur bráðabirgðauppgjör flugstöðvarinnar fyrir fyrstu sex mánuði ársins og þar hefur hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hækkað úr 189 millj. í 225 millj., sem sagt hækkun upp á 36 millj.

Að lokum vil ég minna á, sem er mest um vert, að hægt verði að tryggja áframhaldandi góða afkomu flugstöðvarinnar og ég tel allar forsendur til þess.