Náttúruverndarþing

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:07:09 (1809)

1999-11-18 12:07:09# 125. lþ. 28.12 fundur 107. mál: #A náttúruverndarþing# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Um náttúruverndarþing er getið í lögum um náttúruvernd. Í 10. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðherra skal boða til náttúruverndarþings að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar.

Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Á náttúruverndarþingi skulu m.a. eiga sæti Náttúruverndarráð og fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd, svo og forstjórar stofnana á sviði náttúrufræða. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, svo og sviðsstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra síðarnefndu stofnunarinnar.

Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd og kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Skal ráðið leggja fyrir þingið skýrslu um störf sín.``

Náttúruverndarþing var haldið fyrir tæpum þremur árum í febrúar 1997. En það var einmitt það þing sem samþykkti kröfu um lögformlegt mat á Fljótsdalsvirkjun sem síðan hefur notið víðtæks stuðnings í samfélaginu svo sem kunnugt er. Til þingsins er boðað af umhvrh. og er það helsti lögboðni vettvangur í landinu í hvers kyns umfjöllun um náttúruverndarmál. Aðild að þinginu eiga, eins og fram kom í lögunum, allir stærstu hagsmunaaðilar landsins er sýsla með íslenska náttúru á einn eða annan hátt. Ég fullyrði að náttúruverndarþing er lýðræðislegt tæki sem þjóðin á í náttúruverndarmálum og á náttúruverndarþingi 1997 komu fram skýr tilmæli til ráðamanna þjóðarinnar um vilja þeirra aðila sem best til þekkja og bera hag íslenskrar náttúru fyrir brjósti.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að umhvrh. er skylt að kalla saman náttúruverndarþing samkvæmt lögunum að loknum þingkosningum. Nú eru nokkuð margir mánuðir liðnir frá þingkosningum, sem haldnar voru í maí á sl. vori. Af því tilefni er fyrirspurn mín til umhvrh.:

,,Hvenær stendur til að kalla saman náttúruverndarþing?``