Náttúruverndarþing

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:13:31 (1811)

1999-11-18 12:13:31# 125. lþ. 28.12 fundur 107. mál: #A náttúruverndarþing# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:13]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. greinargóð svör og get svo sannarlega tekið undir orð ráðherrans varðandi það hversu ærin verkefni eru fram undan. Hún lýsir hér afskaplega spennandi þingi sem fram undan er 28.--29. janúar.

Þetta er allt mjög gott og ljómandi fréttir. En, virðulegi forseti, ég get samt ekki látið hjá líða að segja frá því að ég hef ekki getað varist þeirri hugsun að sá dráttur, sem að mínu mati hefur orðið á því að kalla saman náttúruverndarþing, geti að einhverju leyti tengst umfjöllun þeirri sem nú stendur yfir um Fljótsdalsvirkjun, því eins og ég vék að í máli mínu áðan samþykkti síðasta náttúruverndarþing afskaplega afdráttarlausa yfirlýsingu þar sem það lýsti yfir stuðningi við að virkjunin færi í hið lögformlega ferli. Mér sýnist, eins og ríkisstjórnin er að reyna að afgreiða málið núna, að mikil áhersla sé lögð á að afgreiða það frá þinginu fyrir jól. Ég get því ekki, virðulegi forseti, varist þeirri hugsun að sá dráttur á að kalla saman náttúruverndarþing tengist að einhverju leyti því máli og sé til þess fallinn að hleypa ekki náttúruverndarþingi í annað sinn að málefnum Fljótsdalsvirkjunar.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. umhvrh. greinargóð svör og hlakka til þingsins.