Rjúpnaveiði

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:19:32 (1814)

1999-11-18 12:19:32# 125. lþ. 28.13 fundur 116. mál: #A rjúpnaveiði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Jónssyni fyrir þessa fsp. Reynt var á sínum tíma að stytta veiðitímann. Það gerði þáv. hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef skilaði það engum árangri, veiðin minnkaði ekki eins og ætlunin var með styttingu veiðitímans.

Það er rétt sem hér hefur verið dregið fram að á fyrstu dögum veiðitímans var mikið álag. Það er vegna þess að skyttum hefur fjölgað alveg gífurlega. Áður fyrr og hingað til hefur mönnum þótt mjög eðlilegt að menn hafi farið til veiða til að afla sér rjúpna og gæsa í matinn. En nú er svo komið að skyttum hefur fjölgað það mikið að menn hafa áhyggjur. Það er ekki eins sjálfsagt lengur að menn geti farið til veiða, þetta eru að verða takmörkuð gæði.

Ég ákvað núna í haust að takmarka veiðar í rjúpnastofninum og þá í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem rannsóknir sýna mikið veiðiálag. Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að við höfðum sterkar vísbendingar um ofveiði og svo vildum við gjarnan rannsaka áhrif veiðanna á stofninn. En mikilvæg forsenda þess að hægt sé að meta árangur aðgerða til þess að draga úr veiðum og veiðiálagi á rjúpu er að þekkja stofnstærð rjúpunnar og þá þætti sem áhrif hafa á stofninn, svo sem nýliðun, dánartíðni, náttúruleg afföll og afföll vegna veiða. Það svæði á Suðvesturlandi, sem við friðuðum til þriggja ára, er það svæði sem við þekkjum best með tilliti til þessara þátta.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur frá 1994 stundað rannsóknir á þessu svæði og þær hafa sýnt að allt að 70% rjúpna á lífi í upphafi veiðitíma eru skotnar á fyrstu tveimur vikum veiðitímans þannig að þarna eru gífurleg afföll á fyrstu tveimur vikunum. Ef við ætlum samkvæmt þessu að stytta veiðitímann til að hafa áhrif á skotveiðina þyrftum við væntanlega að stytta hann nokkuð mikið.

Nokkuð lengi hafa verið uppi deilur um hvaða áhrif skotveiðar hafa á rjúpnastofninn. Sumir hafa haft efasemdir um að veiðimenn hafi mikil áhrif og hafa sagt að áhrifin séu svo mikil af náttúrulegum afföllum, þ.e. að það drepist mikið af rjúpu vegna veðurs, fæðuskorts eða afráns og þau rök eru færð fyrir því að veiðimenn hafi ekki svo mikil áhrif vegna þessara náttúrulegu affalla. Við viljum gjarnan reyna að átta okkur á hvort þetta sé rétt af því að vísbendingar eru um annað líka, að það sé ofveiði á rjúpu á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna höfum við ákveðið að fara út í þessa þriggja ára rannsókn og var samþykkt þáltill. um það á síðasta þingi. Rannsóknin nær til þriggja ára og hún á að reyna að svara þessum spurningum, hvaða áhrif veiðimenn hafa á stofninn miðað við náttúruleg afföll. Niðurstöðurnar eiga að styrkja okkur í friðunaraðgerðum og þeim aðgerðum sem við viljum gjarnan fara í til þess að rjúpnastofninn bíði ekki skaða af.

Það er einnig ljóst að hagsmunasamtök veiðimanna mæltu gegn því í samtölum á milli okkar að veiðitíminn yrði styttur. Þeir töldu mun eðlilegra að menn rannsökuðu þetta svæði á suðvesturhorninu þar sem við höfum þó þær upplýsingar sem til eru. Veiðistjóri mælti heldur ekki sérstaklega með því að veiðitíminn yrði styttur. Þegar fyrrv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, stytti veiðitímann sýndi sú reynsla okkur að ekkert kom út úr því. Menn vita ekki hvaða áhrif sú stytting hafði, það var ekkert rannsakað um leið og tölur sýndu að menn veiddu bara meira, þeir bara gerðu það á styttri tíma.

Hins vegar hafa komið nokkuð margar ábendingar upp á síðkastið þegar umræða hefur verið hávær um rjúpuna að e.t.v. væri líka leið til að takmarka veiðar að banna sölu á rjúpu í verslunum. Það mundi draga aðeins úr möguleikum þeirra sem eru kannski hálfgerðir atvinnuveiðimenn á að selja og það mundi þá minnka tilhneigingu þeirra til þess að fara í umfangsmiklar rjúpnaveiðar.