Gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:41:03 (1823)

1999-11-18 12:41:03# 125. lþ. 28.14 fundur 131. mál: #A gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:41]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. afskaplega góð svör. Ég tek undir orð hennar um hve þýðingarmikið mál hér er á ferðinni og heyrist á hæstv. ráðherra að hér sé verið að undirbúa málin af umhyggju. Hins vegar tek ég sömuleiðis undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, sem hefur áhyggjur af því að hér sé rasað um ráð fram. Ég deili þeim áhyggjum. Ég hef af því áhyggjur, ef við eigum að fá 15 millj. til málaflokksins með gjaldtöku á næsta ári, að þá verði ekki komnar niðurstöður úr þeim umræðum sem hæstv. umhvrh. hefur lýst að eigi sér stað í nefnd. Ég hef áhyggjur af því að hér sé unnið af fljótfærni.

Ég legg áherslu á að því meira sem við leggjum í friðlýst svæði okkar því meira fáum við af ferðamönnum. Ég tek undir með hv. þm. Tómasi Inga Olrich sem segir að landið sé grunnurinn að lífsgæðum okkar, með stærstu lífsgæðum okkar. Þess vegna er okkur nauðsyn að fara varlega, semja þessar reglur með fullri meðvitund þegar við erum komin til botns í hvað við ætlum að gera og hverju það á að skila.