Gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:42:45 (1824)

1999-11-18 12:42:45# 125. lþ. 28.14 fundur 131. mál: #A gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:42]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er nú ekki um handabakavinnu að ræða. Við erum að að fikra okkur inn á nýja braut. Þessi tala, 15 millj., hefði alveg eins getað verið einhver önnur, hærri eða lægri. Aðalatriðið er að þetta er greiðsla sem á að fara inn en jafnframt út til uppbyggingar svæðanna. Þannig er alls ekki hægt að túlka þetta sem handabakavinnubrögð.

Hins vegar er rétt að við erum ekki með það mótað í dag hvernig eigi að innheimta, hvort farið verður í tilraun á ákveðnu svæði eða hvernig þetta verður gert.

Ég var að reyna að lýsa því hér áðan að það eru kannski tvær eða þrjár leiðir sem koma til greina. Í fyrsta lagi að girða svæði og innheimta við innganginn, hugsanlega á smærri svæðum, t.d. mætti þar nefna Geysi. Kannski væri auðveldast að gera slíkt þar. Það er líka hægt að hugsa sér að innheimta einhvers konar gjöld með sölu minjagripa. Það hefur sums staðar verið gert erlendis. Þá greiða menn ekki gjald þegar þeir koma inn á svæðið en skilja eftir peninga vegna kaupa á minjagripum. Er það hægt? Er hægt að innheimta einhver gjöld af ferðamönnum almennt? Það er líka mjög flókið og allt eru þetta mjög flóknar leiðir.

Mér finnst mjög eðlilegt að skoða hvort ekki er hægt að innheimta gjöld af þeim sem njóta þeirrar uppbyggingar sem við þurfum að sinna. 500 millj. kostar á næstu árum að byggja upp þessa aðstöðu. Á ríkið að borga þetta allt og hafa á sínum herðum eða eiga þeir sem njóta þessarar þjónustu að koma að málinu að einhverju leyti?

Ég er sammála því að hér eigi ekki að greiða fyrir aðgang að náttúrunni sem slíkri. Við erum að tala um greiðslu fyrir þjónustu, uppbyggingu, viðhald og aðra slíka þætti. Ég sé alls ekki fyrir mér að einungis þeir ríku hafi aðgang að náttúrunni. Ég er algjörlega mótfallin slíku en mér finnst eðlilegt að tekin séu væg gjöld fyrir þá þjónustu sem veitt er.