Staðardagskrá 21

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:47:54 (1826)

1999-11-18 12:47:54# 125. lþ. 28.15 fundur 133. mál: #A Staðardagskrá 21# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:47]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Þann 12. mars á síðasta ári var undirritaður samstarfssamningur milli umhvrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga um 18 mánaða tilraunaverkefni um Staðardagskrá 21 þannig að þetta var tímabundið verkefni. Verkefnið hófst formlega í byrjun október sama ár með ráðningu verkefnisstjóra þannig að verkefninu á samkvæmt þessum samningi að ljúka í mars á næsta ári, árið 2000. 31 sveitarfélag tekur þátt í verkefninu og heildarkostnaður við það er áætlaður 7,2 millj. kr. og þar af mun umhvrn. leggja til 4,5. Það sem út af stendur, sem eru þá 2,7 millj., lendir á Samband ísl. sveitarfélaga með skrifstofuaðstöðu og ýmsum kostnaði þar sem verkefnisstjórinn er til húsa.

Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags fram í 21. öldina. Hér lýsti fyrirspyrjandinn því verkefni ágætlega og þeirri hugmyndafræði sem er á bak við Staðardagskrá 21, en hún byggir eins og kom fram á því að umhverfismálin eru sameiginlegt mál okkar allra og er því mjög eðlilegt að hver einstaklingur taki þátt í þessari hugmyndafræði til þess að fleyta okkur fram á veginn. Því hafa sveitarfélögin verið þungamiðja má segja í þessu starfi þar sem þau eru það stjórnsýslustig sem er næst hverjum einstaklingi.

Í nágrannalöndum okkar hefur gerð Staðardagskrár 21 verið mikil þungamiðja í öllu starfi stjórnvalda. Þar hafa landssamtök sveitarfélaga og umhverfisráðuneytin með sér samstarf um Staðardagskrá 21 eins og við hér. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessu samstarfi ljúki ekki núna þegar þessu tilraunaverkefni lýkur. Það er alveg ljóst að því lýkur núna í mars og menn geta metið reynsluna af því þá. En ég veit að menn eru ekki komnir alveg eins langt og þeir vildu í þessu verkefni. Ég tel því mjög eðlilegt að við skoðum hvort við getum ekki haldið þessu verkefni áfram. Ég hef reyndar beitt mér fyrir því varðandi fjárlagavinnu næsta árs að ríkið komi áfram inn með fé til þess að viðhalda þessu verkefni og til að aðstoða sveitarfélögin. Sveitarfélög okkar eru fámenn og hafa ekki mjög mikla burði til þess að fara í verkefni þó þau gjarnan vilji það. Þarna er unnið mjög gott starf og þeim finnst þetta spennandi. Ég veit að þetta er ekki komið nógu langt og ég hef verið í viðræðum við fjmrn. um að tryggja fé áfram til þessa verkefnis og ég geri mér góðar vonir um að þetta mál fái jákvæða afgreiðslu við meðferð fjárlaga núna í þinginu.

Ég vil líka ítreka að það er mikilvægt að ábyrgðin á verkefninu verði áfram hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Auðvitað eiga sveitarfélögin að sinna þessu, en vegna þess hve mörg þeirra eru lítil á Íslandi og við vitum öll hvernig fjárhagsstaða sveitarfélaganna er, það er mikið kvartað undan henni um þessar mundir, þá fyndist mér mikill akkur í því ef ríkið gæti haldið áfram að koma að þessu málum.