Staðardagskrá 21

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:53:28 (1828)

1999-11-18 12:53:28# 125. lþ. 28.15 fundur 133. mál: #A Staðardagskrá 21# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er ljóst að vinnan við Staðardagskrá 21 er víða komin af stað í sveitarfélögunum og fólk hefur metnað fyrir þessum málum. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ríkið fylgi málinu myndarlega eftir þannig að hægt verði að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum atriðum. Ég nefni í því sambandi fráveitumál og ég nefni hollustuverndarmál almennt, sorphirðumál, kynningarmál og menntun.

Virðulegi forseti. Ég tel afar brýnt að af hálfu umhvrn. verði tekinn saman myndarlegur pakki og yfirlit yfir hvernig hv. Alþingi geti komið að þessum málum og myndað þann bakstuðning og eftirfylgni sem nauðsynleg er í málunum núna. Það á ekki síst við kynningar- og menntamálin, en eins og ég sagði þá eru hollustuverndarmálin gríðarlega stór þáttur þarna og þar þarf að taka til hendinni.