Staðardagskrá 21

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:56:43 (1831)

1999-11-18 12:56:43# 125. lþ. 28.15 fundur 133. mál: #A Staðardagskrá 21# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég er mjög sammála því sem hér hefur komið fram að það er einmitt mikilvægt að þessu tilraunaverkefni ljúki ekki núna. Auðvitað gæti ríkið dregið sig út úr þessu með fjárstuðning en þá mundi þetta lenda meira á sveitarfélögunum af því að ég býst við að þau vilji að sjálfsögðu halda þessu áfram. Þau sjá það sama og við sjáum, að það er brýnt að leiðbeina sveitarfélögum núna með faglegri aðstoð eins og verkefnastjórinn Stefán Gíslason hefur gert svo ágætlega. Því er eðlilegt að þetta verkefni haldi áfram og ég vil gjarnan sjá að ríkið komi þar áfram að. Ég mun beita mér af alefli (Gripið fram í: Já, flott.) eins og sagt var svo skemmtilega hérna áðan.

Auðvitað erum við að koma að fleiri verkefnum sem tengjast þessu mjög sterklega. Ég vil sérstaklega nefna verkefni sem er á könnu Landverndar, þ.e. svokallað GAP-verkefni, Global Action Plan eða umhverfisvænn lífsstíll eins og ég held að það hafi verið þýtt. Þar höfum við komið að með fjárstyrk. Það er mjög spennandi verkefni sem snýr að fjölskyldum í landinu, gengur út á sjálfbæra þróun og tengist mjög þessari Staðardagskrá 21 þar sem fjölskyldum er leiðbeint í gegnum ákveðið kerfi um hvernig þær geta breytt sínum lífsstíl þannig að hann verði umhverfisvænn. Og það er ekki eins erfitt og margir halda. Það er eiginlega mjög auðvelt þegar menn læra það og kynna sér það.

Ég get líka sagt hér að á mínu heimili erum við nýbyrjuð að flokka lífrænt sorp, þ.e. matarafganga og annað slíkt. Fyrir fram hélt ég að þetta væri mjög erfitt en svo er ekki.