Notkun á íslensku máli í veðurfréttum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:07:55 (1835)

1999-11-18 13:07:55# 125. lþ. 28.16 fundur 155. mál: #A notkun á íslensku máli í veðurfréttum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[13:07]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svar hennar og ég þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni sérstaklega fyrir innlegg hans sem mér fannst alveg vera talað frá mínu hjarta.

Ég er dálítið hissa á hæstv. umhvrh. að segja að enginn hafi tilfinningu fyrir íslensku orðunum eins og kul, hægur og þeim orðum sem ná yfir vindstyrk sem er undir hvassviðri. Ég er dálítið hissa að heyra þetta og ég minni bara á að við erum nýbúin að vera með dag hinnar íslensku tungu og sá dagur var á forræði íslensku ríkisstjórnarinnar eftir því sem ég best veit. Ég tel það ekki gott innlegg inn í þá umræðu að reyna að varðveita íslenska tungu, að telja það henni helst til framdráttar að hlaupa eftir einhverjum tískubylgjum og afneita gömlum íslenskum orðum sem þjóðin hefur alið með sér í árhundruð. Ef yngri kynslóðin þekkir ekki þessi orð lengur, þá er það vegna þess að við erum hætt að nota þau og höfum vanrækt að kenna unga fólkinu að nýta sér þessi orð til að lýsa veðurfari.

Hver talar um tvo til þrjá metra á sekúndu þegar hann ætlar að lýsa kuli? Gerir það einhver? Ég veit ekki hver hefur tilfinningu fyrir metrum á sekúndu eins og hæstv. ráðherra telur að menn hafi allt í einu í dag. Ég veit ekki um einn einasta mann sem hefur tilfinningu fyrir metrum á sekúndu nema þá hæstv. umhvrh.

Ég vona svo sannarlega að umhvrh. endurskoði afstöðu sína að þessu leyti og láti af þeirri villu að telja að þetta sé einhver bót. Ég vil bara ítreka það að ef veðurfræðingar telja nauðsynlegt að hafa metra á sekúndu með, þá er sjálfsagt að gera það en nýta líka gömlu íslensku orðin til að viðhalda þeim í málinu. Það er mikilvægast af þessu öllu.