Notkun á íslensku máli í veðurfréttum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:10:01 (1836)

1999-11-18 13:10:01# 125. lþ. 28.16 fundur 155. mál: #A notkun á íslensku máli í veðurfréttum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[13:10]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef menn telja að þeir hafi ekki fengið svör hér, eins og ég heyrði að hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði, en ég fór einmitt yfir það í þremur liðum af hverju menn hefðu farið út í þessa breytingu.

Það er alls ekki svo að ég sé að gefa í skyn að ég vilji að við afneitum orðum í tungu okkar, alls ekki. Það er hins vegar skoðun mín að fólk og sérstaklega ungt fólk átti sig ekki á muninum á andvara, kuli, golu, stinningsgolu, kalda og stinningskalda almennt. Menn hafa að sjálfsögðu tilfinningu fyrir því að þetta sé minna en rok og hvassviðri en ég held að menn geti ekki flett þessu upp skipulega í huganum nákvæmlega hvað þetta þýðir. Það geta menn miklu frekar með tölunum en gömlu og góðu orðunum. Ég er sannfærð um að almennt hefur t.d. ungt fólk ekki tilfinningu fyrir þessu. Ég veit að það er erfitt að breyta til en það er mín trú að eftir nokkur ár þegar menn eru orðnir vanir þessu, þá dettur þeim ekki í hug að fara til baka. Þá munu menn hafa tilfinningu fyrir 10 metrum á sekúndu t.d. Ég veit að í dag hafa menn enga sérstaka tilfinningu fyrir því en það er vegna þess að við erum nýlega búin að breyta þessu þannig að ég tel að við eigum að halda áfram á þessari braut og sjá hvort þessi tilfinning jafni sig ekki, sem ég heyri að hv. fyrirspyrjandi hefur ekki.