1999-11-18 13:13:20# 125. lþ. 29.2 fundur 195. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES)# þál. 2/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, þ.e. CITES-samningnum sem gerður var í Washington 3. mars 1973 ásamt breytingum sem gerðar voru á honum í Bonn 22. júní 1979 og í Gaborone 30. apríl 1983. Samningur þessi öðlaðist gildi 1. júlí 1975 og aðildarríki hans eru nú um 145 talsins.

Markmið CITES-samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Hann nær bæði til viðskipta með lifandi dýr og dauð og með plöntur. Samningurinn er því í eðli sínu alþjóðlegur viðskiptasamningur. Í honum eru reglur um innflutning, útflutning og endurútflutning dýra og plantna sem skráð eru í viðaukum við samninginn, svo og um aðflutning þeirra frá hafsvæðum utan lögsöguríkja. Dýr og plöntur, sem falla undir samninginn, eru talin upp og flokkuð í þrjá viðauka eftir því hvaða reglur gilda um alþjóðaverslun með þau, sbr. 2.--5. gr. samningsins.

Með aðild að samningnum tekur Ísland þátt í alþjóðlegu samstarfi um vernd dýra og plantna í útrýmingarhættu. Með aðild getur Ísland og haft áhrif á það hvaða tegundir eru skráðar í viðauka við samninginn.

Er þetta mikilvægt í ljósi vaxandi umfjöllunar á vettvangi CITES-samningins um skráningu fisktegunda í viðaukann. Nauðsynlegt er að hafa í huga að þótt ýmsar fisktegundir séu ofveiddar í sumum heimshlutum kunna stofnar þeirra annars staðar að vera í góðu ástandi og fjarri því að vera í hættu.

Í I. viðauka eru tegundir sem eru í útrýmingarhættu og viðskipti hafa eða geta haft áhrif á. Það þarf samt ekki að þýða að þessar tegundir séu í útrýmingarhættu þótt þær séu skráðar þarna. Það er stundum tóm vitleysa.

Skv. 3. gr. er alþjóðaverslun með þessar tegundir háð mjög ströngum reglum og er aðeins heimiluð í undantekningartilvikum og með því skilyrði að tilskilin innflutnings-, útflutnings- og/eða endurútflutningsleyfi viðkomandi landa, eða vottorð vegna aðflutnings úr sjó, séu fyrir hendi.

Í II. viðauka eru tegundir sem kunna að verða í útrýmingarhættu ef ekki er höfð stjórn á alþjóðaverslun með þær. Skv. 4. gr. er alþjóðaverslun með þessar tegundir heimiluð með því skilyrði að tilskilin útflutnings- og/eða endurútflutningsleyfi viðkomandi landa, eða vottorð vegna aðflutnings úr sjó, séu fyrir hendi.

Síðast í III. viðauka eru skráðar tegundir sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum og skráðar í viðaukann af þeim í þeim tilgangi að önnur aðildarríki aðstoði þau við að hafa eftirlit með verslun með þær. Skv. 5. gr. er alþjóðaverslun með þessar tegundir háð leyfi frá útflutningslandi þeirra ef upprunalandið hefur skráð tegundina í III. viðauka.

Óheimilt er að gera almenna fyrirvara við ákvæði CITES-samningsins. Hins vegar getur aðildarríki gert fyrirvara að því er varðar sérhverja tegund sem tilgreind er í I., II. eða III. viðauka þegar það gerist aðili að honum, svo og vegna breytinga á viðaukunum síðar. Ekki eru settar takmarkanir á fjölda þeirra tegunda, sem fyrirvari nær til, en altækur eða mjög víðtækur fyrirvari sem stæði í lengri tíma yrði vart talinn samrýmast verndunarmarkmiðum samningsins er koma fram í inngangsorðum hans.

Nokkrar hvalategundir, sem eru algengar hér við land, eru skráðar í I. og II. viðauka þótt þær séu hvorki í útrýmingarhættu né væru í slíkri hættu þótt ekki giltu reglur um verslun með þær. Rétt þykir að gerðir verði fyrirvarar af Íslands hálfu að því er skráningu þessara tegunda í viðaukana varðar. Fyrirvararnir eru prentaðir sem fylgiskjal III með þingsályktunartillögu þessari.

Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að framfylgja ákvæðum samningsins. Ber þeim m.a. að banna verslun með eintök dýra eða plantna sem brýtur í bága við ákvæði samningsins, gera verslun með og eign á slíkum eintökum refsiverða og sjá til þess að slík eintök séu gerð upptæk eða þau flutt aftur til útflutningslandsins. Þetta kallar á lagasetningu og nánari útfærslu í reglugerð um framkvæmd samningsins hér á landi.

Aðildarríki CITES-samningsins skulu tilnefna eitt eða fleiri stjórnvöld sem eru bær til að veita leyfi eða vottorð fyrir þess hönd og eitt eða fleiri stjórnvöld sem fara með vísindalegt ákvörðunarvald. Rétt þykir að sjútvrn. verði það stjórnvald er veitir leyfi eða vottorð að því er nytjastofna sjávar varðar en umhvrn. varðar varðandi aðrar tegundir og/eða Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands fari með hið vísindalega ákvörðunarvald. Tilkynna beri vörsluaðila samningsins um það stjórnvald sem fengið hefur umboð til þess að hafa samband við önnur aðildarríki og við skrifstofu samningsins. Rétt þykir að utanríkisráðuneytið verði slíkt stjórnvald hér á landi.

Herra forseti. Það hefur lengi verið í umræðu hér á landi að Íslendingar gerðust aðilar að þessum samningi. Niðurstaðan hefur oftast orðið sú að ekki væri rétt að gera það vegna þess að skráðar hefðu verið ýmsar tegundir, sérstaklega fisktegundir, hvalategundir og sjávarspendýrategundir í verndunarkafla samningsins sem væru alls ekki í útrýmingarhættu.

Sem betur fer hefur ýmislegt breyst í þessum efnum. Ég tel nauðsynlegt að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um verndun tegunda, verndun lífríkis jarðarinnar. Það er líka mikilvægt að við berjumst fyrir því að tegundir séu teknar út af skrá sem eiga ekki heima þar eins og ýmsar hvalategundir og við sjáum ýmsa möguleika á því að það geti tekist í samstarfi við aðrar þjóðir því að þær þjóðir sem hafa með engum rökum verið að berjast fyrir því að þessar tegundir kæmu þarna inn eiga sem betur fer nokkuð undir högg að sækja vegna þess að þær hafa farið offari og skemmt fyrir sannri náttúruvernd í heiminum.

Það er líka mikilvægt að Íslendingar séu á þessum vettvangi til að stuðla að því að aðeins þær tegundir fari inn á þessar skrár sem eru í raunverulegri útrýmingarhættu og ber að vernda. Við eigum að sjálfsögðu að taka þátt í því að vernda náttúru og dýralíf í heiminum en við eigum líka að vera þar á vettvangi til að koma í veg fyrir að menn undir merkjum umhverfisverndar ráðist gegn eðlilegum lifnaðarháttum í heiminum, sambands manns og náttúru. Þess vegna er það niðurstaða íslenskra stjórnvalda að rétt sé að við gerumst aðilar að þessum samningi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði till. vísað til hv. utanrmn.