1999-11-18 13:22:58# 125. lþ. 29.2 fundur 195. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES)# þál. 2/125, MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega þessar till. til þál. um aðild að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna, sem eru í útrýmingarhættu, og tel að það sé í raun löngu tímabært að Ísland gerist aðili að CITES-sáttmálanum, fyrst og fremst til að auka möguleika okkar til þess að hafa áhrif á samninginn og viðauka hans út frá stöðu einstakra dýrategunda og plantna hér á landi en möguleikar okkar til þess utan samningsins eru litlir sem engir. Það er ekki í verkahring okkar á hv. Alþingi að standa því að ræða um einstakar tegundir sem ættu heima eða ekki heima á hverjum stað í samningnum. Það er þeirra sem fara með vörslu hans og framkvæmd þegar þar að kemur og sjálfsagt rætt eitthvað í nefnd við umfjöllun á samningnum en ég legg áherslu á að Alþingi afgreiði þetta mál sem allra fyrst og tel eins og ég sagði áðan löngu tímabært að Íslendingar gerist aðilar að samningnum.