Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:44:40 (1844)

1999-11-18 13:44:40# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek áskorun hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að koma upp í andsvar fyrst og fremst vegna þeirra orða hans að hann hvetur okkur sem höfum talað fyrir náttúruverndarsjónarmiðunum að vera sjálfum okkur samkvæm.

Virðulegi forseti. Ég hef talað fyrir náttúruvernd og ég legg mig fram um að vera sjálfri mér samkvæm, líka í lífsstíl. Ég er ekki á móti virkjunum, virðulegi forseti. Það hef ég ekki sagt. Ég er hins vegar á móti því að við notum okkar vistvænu orku til mengandi álbræðslu.

Ég bendi hv. þm. Tómasi Inga Olrich jafnframt á það, virðulegi forseti, að Ísland er ekki eina landið sem hefur á að skipa vatnsorkuvirkjunum. Þær eru víða í heiminum. Ég mæli ekki bót álbræðslum sem eru knúnar með raforku sem framleidd er með gasi, olíu eða kolum. Það geri ég ekki. Ég hvet hins vegar til þess að við eflum rannsóknir á vistvænum orkugjöfum og vistvænum framleiðsluferlum.